Það hefur verið ótrúlega hávær umræða um það sem áhangendur kalla „betra peningakerfi“, oft nefnt heildarforðakerfi.
Ég vona að ég fari ekki mjög rangt með stutta lýsingu að þetta gangi út á að stöðva heimildar banka til að lána út umfram þá peninga sem Seðlabanki viðkomandi ríkis leggur til. Í einhverjum tilfellum má lána innlán sem samþykki eigenda innlána. Þetta þýðir auðvitað engan sveigjanleika til uppbyggingar eða framþróunar og allar ákvarðanir eru teknar af miðstýrðri nefnd, nokkuð sem minnir óþægilega á hörðustu kommúnistaríki tuttugustu aldarinnar. Þetta kerfi á sér rætur í fræðimannasamfélaginu en hefur (mér vitanlega) hvergi verið reynt síðustu 3-4 aldir. Hugmyndirnar um kerfið hafa vissulega verið plástaðar eftir gagnrýni, en það er svo sem ekki að sjá að þessar hugmyndir séu teknar alvarlega. Að minnsta kosti virðist ekki nokkurri ríkisstjórn hafa komið til hugar að taka þetta upp.
Nú skil ég að vissu leyti hvers vegna þetta fær byr undir stöku væng, nánast óheft dæling peninga í hagkerfið fyrir hrun átti stóran þátt í hversu illa fór. Það er hins vegar ekki þar með sagt að vandamál vegna öfga í eina áttina kalli á enn meiri öfgar í hina. Það gleymist að í flestum löndum sem hafa stýringar í lagi þá virkar hefðbundið peningakerfi – sem kallað hefur verið brotaforðakerfi, til aðgreiningar – alveg ágætlega.
Þessu má kannski líkja við land þar sem allar umferðarreglur væru nánast ófheftar og öllum frjálst að keyra hvar þeim á sýndist, á hvaða raða sem þeim dytti og hug og án tillits til ástands. Líkast til – ja, eða alveg örugglega – yrði talsvert um umferðarslys.
Svarið væri ekki að banna alla umferð og öll ökutæki – eða ég vona ekki.
Svarið væri að horfa til þeirra þjóða sem hafa besta umferðarmenningu og taka mið af þeirra lögum og reglum.
Ég vona að minnsta kosti að það fengi lítið fylgi að banna alla umferð og allan akstur, það er nefnilega heilmikið gagn af ökutækjum ef rétt er með farið.