Blekkingarleikur með skatthlutfall

Posted: apríl 11, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Því er gjarnan haldið fram að skattar séu ekkert hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þessu til staðfestingar er gjarnan vísað til prósentu tekjuskatts og virðisaukaskatts annars vegar og hins vegar að tekjur ríkissjóðs séu sambærilegt hlutfall af þjóðarframleiðslu og í nágrannaríkjum – hvernig svo sem „nágrannaríki“ eru skilgreind.

Skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru um 50% í Danmörku – 44% í Noregi – 41% í Þýskalandi – 40% hér – 32% í Eistlandi – 30% á Írlandi – 30% í Sviss, svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi – amk. ef marka má http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_tax_revenue_as_percentage_of_GDP – sem mér sýnist gjarnan vísað til. Að vísu virðist fullyrðingin um „nágrannaríki“ svo sem ekki standast vel skoðun, ef út í það er farið.

Hitt er verra að hér á Íslandi fáum við minna fyrir skattpeninginn en í mörgum þessara landa. Þannig erum við nefnilega líka rukkuð um alls kyns aukagjöld vegna þátta sem aðrar þjóðir greiða fyrir með sköttum, bæði þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þetta auðvitað dulin skattheimta. Þegar við borgum 40% í skatta til að standa straum af (meðal annars) heilbrigðis- og menntakerfi og erum svo rukkuð að auki um komugjöld og skólagjöld (eða hvað það er kallað) þá erum við auðvitað að borga meira fyrir þessa þjónustu en þau 40% sem svona samantektir gefa til kynna.

Það má deila um hversu háir skattar eiga að vera. Og það er áhugavert að rökræða hvort megnið eigi að koma í gegnum jaðarskatta, neysluskatta, tekjuskatta, eignaskatta, o.s.frv..

En fyrir alla munið hættið þessum blekkingum og ræðum málið út frá réttum forsendum.

Lokað er á athugasemdir.