Hvers vegna ég get ekki kosið… Hægri græna

Posted: apríl 4, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég skal játa að ég afskrifaði þetta framboð frekar fljótt og örugglega. Aðallega vegna ótrúverðugrar forystu, sem hefur nú kannski komið í ljós að ræður ekki við einföld verkefni. En aðallega vegna þess að ég næ engu tangarhaldi á stefnu flokksins.

Ekki hef ég hugmynd um hvað felst í þessu hugtaki, „Hægri grænir“, þannig að það hjálpar lítið.

En það nægir mér að flokkurinn flaggar sama bullinu um verðtryggingu og margir aðrir. Og fer fram með óraunhæf loforð, eins og að lækka lán um allt að 45%, lofa öllum nemendum spjaldtölvu og eitt af fáum málum sem nefnd eru snýst um staðsetningu flugvallar í Reykjavík.

Þá kemur einhver undarleg hugmynd þess efnis að tengja krónuna (eða Ríkisdal, eins og gjaldmiðillinn á að heita) við bandaríkjadal. Afnema verðtryggingu og tengja svo gjaldmiðilinn við annan, væntanlega einhliða, og hvað? Ef hugmyndin er að handstýra genginu verða ekki frjáls viðskipti með gjaldmiðilinn.

Þá er flokkurinn á móti aðild að Evrópusambandinu, mál sem mér finnst ótímabært að taka afstöðu til.

En auðvitað er ekki allt slæmt eða neikvætt, ég efast ekkert um vilja til að koma góðu til leiðar og brjóta upp hefðbundin stjórnmál. En það er því miður ekki nóg..

Lokað er á athugasemdir.