Það er víst tilgangslaust að ræða verðtryggingu og vísitölur.. svörin sem fást eru svona allt frá útúrsnúningum til uppnefna – og sami misskilningurinn endurtekinn aftur og aftur.
En, af meðfæddri þrjósku…
Verðtrygging er ekkert vandamál, hún segir einfaldlega að lán skuli greidd til baka í jafn verðmætum krónum og það var upphaflega veitt.
Vísitalan sem hefur verið notuð er vandamál, lánin hækka úr takti við launaþróun. Það er svo sem ekki víst að það yrðu allir sáttir við að nota launavísitölu – á árunum 1995-2005 hefðu lánin nefnilega hækkað umfram verðlag. Mér finnst þetta þó miklu nærtækari viðmiðun, lántakendur vita þó að hverju þeir ganga. Önnur leið væri að miða húsnæðislán við verðlag á húsnæði, lánin hækka eða lækka í takt við verðmæti eignarinnar.
Kannski er best að velta fyrir sér hvort betra sé að vera með verðtryggt lán eða óverðtryggt með því að skoða það mögulega (en vissulega ósennilega) tilfelli að verðhjöðnun verði í stað verðbólgu. Þetta hefur gerst, ekki oft, og ekki mikið, en er sem sagt ekki óhugsandi. Það er ekki punkturinn hjá mér. Heldur að ef við gefum okkur að verðhjöðnun verði í einhvern tima, laun lækki jafnvel og verð á neysluvörum lækki. Þá væri heldur betur hagstætt að hafa lánin verðtryggð. Þau myndu nefnilega lækka.
Ég endurtek, ég veit að þetta er ekkert sérstaklega líklegt, en þetta er ágæt leið til að skilja hugmyndina á bak við verðtryggingu.
Hún er ekki verðbólguhvetjandi frekar en hitamælir hefur áhrif á veðurfarið…
Hitamælir hefur ekki áhrif á veðurfarið en hann gagnast lítið til að mæla úrkomu eða vind sem eru mikilvægir þættir veðurfars. Það er svipað með vísitöluna, hún gefur takmarkaða mynd af verðlaginu. Árið 1987 keypti ég PC tölvu á 260 þ.kr. Hún var með 286 örgjörva, 20 mbyte disk, 640 kbyte minni og 13″ litaskjá. Síðan hefur vísitala hækkað um fjórfallt og þessi verðtryggða upphæð ætti að vera komin vel yfir milljón kr. Ætti ég að fá samskonar tölvu núna og ég fékk fyrir 26 árum? Eða ofurflotta tölvu á yfir milljón (hvar sem sem hún nú fæst), eða kannski 200 stk af RasberryPi (sem hver er þó töluvert öflugri tölva en sú sem ég keypti fyrir 26 árum og getur auk þess gert miklu meira með frjálsum og ókeypis hugbúnaði)?
Erlendis reyna menn líka að mæla verðlag með vísitölum, en þar reyna þeir sumir að krukka í mælingarnar. Ef t.d. 40″ sjónvarp hækkar um 2% milli ára, þá segja hagspekingar að verðlag hafi lækkað, því viðskiptavinurinn fær meiri gæði ári seinna en sem nemur 2% verðhækkun. Svona æfingar rugla verðmælingar. Framleiðni hækkar yfirleitt með tímanum, þannig að minna kostar að framleiða vöruna. Það getur þá orðið á hinn veginn til hækkunar á verðbólgu, því ef varan hækkar um 2% í dollurum, þá hefur hún í reynd hækkað um 3% því það kostaði 1% minna að búa hana til. Sem sagt ekki einfalt mál að mæla verðbólgu.
Svo er það spurning sem engin þorir að bera fram. Ætti að veita lán fyrir húsnæði? Er það ekki samfélagsins að sjá um að allir hafi þak yfir höfuðið? Í Japan fær ungt fólk íbúð gefins, en er svo alla ævina að safna fé til að geta gefið afkomendum sínum íbúð. Í Líbýu (í tíð Gaddafi) útvegaði ríkið ungu fólki íbúð frítt þegar það flutti að heiman. Fólk gat svo selt íbúðina og keypt stærri seinna þegar það var búið að spara. Hvers vegna er ekki meira um búsetuíbúðir hérlendis, eða tryggari leigumarkaður? Nú eða ódýrarara og minna húsnæði eins og á hinum Norðurlöndunum?
En þetta var nú bara smá útúrsnúningur.
Ætli tölvudæmið sé sérstaklega gott, en reyndar sýnist mér að öflugustu tölvurnar haldi þokkalega í verðlag, En ef ég sel td. þriggja herbergja íbúð, fæ greidda út í hönd og lána andvirðið þá þætti mér ekki ósanngjarnt að geta keypt þriggja herbergja íbúið þegar ég fæ lánið greitt, jafnvel fengið einhverja hóflega þóknun fyrir greiðann.
Og nei, ég er ekki sammála því að gefa hluti – það brenglar of mikið, enda alltaf einhver sem borgar.