Posts Tagged ‘verðhjöðnun’

Það er víst tilgangslaust að ræða verðtryggingu og vísitölur.. svörin sem fást eru svona allt frá útúrsnúningum til uppnefna – og sami misskilningurinn endurtekinn aftur og aftur.

En, af meðfæddri þrjósku…

Verðtrygging er ekkert vandamál, hún segir einfaldlega að lán skuli greidd til baka í jafn verðmætum krónum og það var upphaflega veitt.

Vísitalan sem hefur verið notuð er vandamál, lánin hækka úr takti við launaþróun. Það er svo sem ekki víst að það yrðu allir sáttir við að nota launavísitölu – á árunum 1995-2005 hefðu lánin nefnilega hækkað umfram verðlag. Mér finnst þetta þó miklu nærtækari viðmiðun, lántakendur vita þó að hverju þeir ganga. Önnur leið væri að miða húsnæðislán við verðlag á húsnæði, lánin hækka eða lækka í takt við verðmæti eignarinnar.

Kannski er best að velta fyrir sér hvort betra sé að vera með verðtryggt lán eða óverðtryggt með því að skoða það mögulega (en vissulega ósennilega) tilfelli að verðhjöðnun verði í stað verðbólgu. Þetta hefur gerst, ekki oft, og ekki mikið, en er sem sagt ekki óhugsandi. Það er ekki punkturinn hjá mér. Heldur að ef við gefum okkur að verðhjöðnun verði í einhvern tima, laun lækki jafnvel og verð á neysluvörum lækki. Þá væri heldur betur hagstætt að hafa lánin verðtryggð. Þau myndu nefnilega lækka.

Ég endurtek, ég veit að þetta er ekkert sérstaklega líklegt, en þetta er ágæt leið til að skilja hugmyndina á bak við verðtryggingu.

Hún er ekki verðbólguhvetjandi frekar en hitamælir hefur áhrif á veðurfarið…