Posts Tagged ‘Skattalækkanir’

Skattalækkanir

Posted: apríl 7, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ein ástæða þess að ég rekst hvergi almennilega í stjórnmálaflokki er að mínar skoðanir ganga þvert á flokka og framboð.

Ég er til dæmis á því að skattalækkanir, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, séu eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar þegar kemur að efnahagsmálum. Einföldun skattkerfisins skiptir líka máli. Og það að lækka vexti. Sem stangast á við skoðanir skoðanabræðra og systra í mörgum öðum mikilvægum málum.

Umræðum um skattakerfið og skattprósentu hefur að mörgu leyti verið byggð á misnotkun á tölfræði. Bent er á að skatthlutfall sé ekki svo hátt í samanburði við nágrannalöndin. Það gleymist hins vegar að nefna hvað við fáum fyrir skattpeningana. Það kostar talsvert fyrir hvern nemanda að mæta í skóla, reynið að bjóða norðmönnum upp á þetta. Hver heimsókn á heilbrigðisstofnun kostar meira en þekkist í sömu löndum. Svo má ekki gleyma að við erum ekki með há útgjöld til varnamála..

En svo því sé haldið til haga þá er ekki þar með sagt að ég fordæmi verk núverandi ríkisstjórnar af sama krafti og margir andstæðingar hennar. Það ber að virða að þau tóku við hrikalega erfiðu verkefni, og þó ég hefði mælt með öðrum leiðum – sem enginn veit hvernig hefðu farið – þá má ekki gleyma að þau fylgdu sinni sannfæringu, gengu heiðarlega í verkið og náðu betri árangri en flestir þorðu að vona.

En það er kominn tími til að lækka skatta og einfalda skattkerfið. Ég hef ekki endanlegt svar við hversu mikið. En gott dæmi, þó ekki sé stórt, eru háar álögur á fyrirtæki. Tekjurnar af þeim eru svo notaðar til að styrkja nýsköpun. Er ekki einfaldara að halda peningunum innan fyrirækjanna og leyfa þeim að vinna að nýsköpun?

Lækkun skatthlutfalls þýðir ekki að peningar hverfi úr hagkerfinu. Það þýðir að neytendur geta notað peningana. Það skapar fleiri störf. Sem aftur lækkar útgjöld, til dæmis, vegna atvinnuleysis. Ég ætla ekki að láta eins og þetta sé einföld jafna eða töfralausn að fara í kúvendingu, en núverandi skatthlutfall er of hátt.

Hækkun skattleysismarka, ein skattprósenta og lægri aukaskattar, svo sem tryggingagjald… væru fyrstu skrefin.

[PS. gerði minni háttar lagfæringar á upphaflegri færslu]