Posts Tagged ‘Bandaríkin’

Ekki til áttavillta vestursins

Posted: janúar 19, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna næstu árin.

Ástæðan er kjör trúðsins til forseta í nóvember.

Ekki frekar en að ég gat ekki hugsað mér að fara á HM í fótbolta 2018.

Ekki veit ég alltaf hvar á að draga mörkin.. ég heimsótti til dæmis Bandaríkin í upphafi fyrri forsetatíðar gaursins – en bæði var búið að ákveða og greiða fyrir þá ferð löngu fyrr og ástandið ekki eins svakalegt og núna.

Nú veit ég vel að Bandaríkin er samband margra ólíkra ríkja og stuðningur við hann mis mikill á milli ríkja.

En það breytir því ekki að það er eitthvað verulega ógeðfellt við að hann hafi verið kjörinn.

Sannarlega rasisti, fasisti, kvenfyrirlitningin greinileg, frekar heimskur, verulega fáfróður og beinlínis helsjúkur raðlygari. Og þetta mat mitt byggir eingöngu á því sem ég hef beint frá honum af samfélagsmiðlum, ákvörðunum, framboðsfundum og viðtölum.

Sennilega réðu efnahagsmál, eða misskilningur á stöðu þeirra, atkvæðum eða atkvæðaleysi ansi margra. Það voru jú talsvert færri sem greiddu honum atkvæði núna en fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að fleiri mættu kjósa, en það voru bara enn færri sem nenntu að hafa fyrir því að kjósa gegn honum. Það er einhver huggun, en ekki mikil að hann fékk þó ekki meirihluta atkvæða.

Hann spilar auðvitað á vanþekkingu, fáfræði, mannfyrirlitningu og fordóma. Og kemst upp með það. Þar liggur vandinn.

En það er ekki eingöngu kosningarnar, það er einhver svakalegur aumingjagangur þarna vestanhafs að ekki sé búið að koma honum á bak við lás og slá fyrir löngu.. dæmdur glæpamaður og ekki ólíklegt að hann hafi verið sekur um landráð í tveimur ólíkum málum.

Ekki má gleyma að hann ber auðvitað ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum fjölda manns eftir Covid, við fáum sennilega seint að hversu margir misstu lífið vegna áróðurs sem byggðist fáfræði og heimsku.

Lengi vel stögluðust stuðningsmenn hans á því að hann hefði ekki hafið neitt stríð.

En nú gengur stjórnlaust gasprið í þessum vanvita út á að beita hervaldi gegn nokkrum nágrannaríkjum. Fasismi, rasismi, útlendingafordómar – þetta hafa lengi verið “vörumerkin” – og nú bætast kröfur um landvinninga við – samlíkingin við Þýskaland Hitlers er orðin raunveruleg.

Ég óttast að sagan frá seinni heimsstyrjöldinni geti endurtekið sig.

þá er nokkuð ljóst að það er eitthvað mikið að.

Ræfillinn, drullusokkurinn og auminginn (ég nenni ekki að skýra frekar, það yrði allt of langur lestur) sem sat á forsetastóli 2016-2020 og tapaði síðustu kosningum afdráttarlaust, virðist eiga þokkalega möguleika á að vinna.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna það kemur yfirleitt til greina að kjósa hann, mannfyrirlitningin, fáfræðin, heimskan, fordómarnir, getuleysið, stanslaus lygaþvælan, ofbeldið og svo mætti lengi telja.

En ekki síður aumingjaskapur og getuleysi réttar- og dómskerfisins við að koma honum á bak við lás og slá eftir augljósa og ítrekaði glæpi er svo enn frekar til marks um að það er eitthvað mikið að vestanhafs. [jú, ég veit að hann var búinn að planta útsendurum í lykilstöður í réttarkerfinu, en samt].

Enda hvernig sem fer, kannski er þetta stórveldi komið á endastöð og fall yfirvofandi.

Ég er ekki svo viss um að það sé endilega svo slæmt svona til lengri tíma litið. Stórveldi liðast gjarnan í sundur.

En auðvitað vona ég bæði vegna vina og kunningja sem búa þarna – og líka vegna þess að þarna er fullt af góðu fólki – að kosningarnar fari vel og við taki almennar breytingar sem skilji mannfyrirlitningu, fasisma, fordóma og fáfræði eftir. En það verður erfitt.

Einkaguð forsetans

Posted: ágúst 18, 2020 in Umræða
Efnisorð:,

Gott og vel,  það þarf auðvitað enga sérfræðimenntun til að átta sig á að þessi sjálfhverfi auli sem ræður ríkjum vestanhafs er gjörsamlega snar klikkaður og í sjálfu sér, og ef út í það er farið, óskiljanlegt að ekki sé búið að setja hann af..

En í ljósi spjallsins sem hann segist hafa hann átt við „guð“ um að „guð“ hafi sagt honum að hann hafi sent Covid-19 á alla heimsbyggðina til að prófa hann sem forseta (nei, nei, hann er alls ekkert sjálfhverfur) þá velti ég fyrir mér hvernig þetta „samtal“ hafi farið fram..

„guð forsetans“: ég þurfti að prófa þig enn frekar þannig að ég drap fullt af fólki út um allan heim til þess eins að prófa þig

Forsetinn: já, stóð ég mig ekki bara vel?

„guð forsetans“: tja, þú varst nú eiginlega að mestu að spila golf

Forseti: já, en þetta er ekkert hættulegt, ég vissi allan tímann að þetta yrði stórhættulegt, þetta er gott fólk sem gengur um með skotvopn og mótmælir því að þurfa að nota grímu, kannski set ég samt sjálfur upp grímu, þetta var fyrri forseta að kenna, það var einhver sem ég þekki ekki sem lokaði mikilvægum stofnunum, og svo var ég ekki alveg viss hver átti að sjá um að stýra

„guð forsetans“: úff, ég sem á að vera alvitur og alsjáandi, ég botna ekki baun í þessu rausi 

Forseti: En það er einhver kona á YouTube sem er búin að finna lækningu

„guð forsetans“: en það eru hátt í 200.000 dánir, af hverju notarðu ekki lækninguna

Forseti: Þetta er nú ekki svo mikið af fólki, sjáðu bara Nýja Sjáland, þar voru 9 manns að greinast með smit

„guð forsetans“: kannski golfið sé ekki slæm hugmynd, en ætli það sé ekki betra að þú einbeitir þér þar, ég skal senda þér nokkrar plágur til að prófa þig, spurðu bara reynda golfleikara.. 

Vopn eða fólk?

Posted: desember 15, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Við erum aftur minnt óþægilega á hrikalegar afleiðingar þess hálfvitaháttar að hafa morðvopn aðgengileg fyrir nánast hvern sem er.

„Byssur drepa, ekki fólk“ er klisja sem margir endurtaka og halda að það þýði að það sé allt í lagi að hafa nánast opið aðgengi að byssum, því fólkið sé vandamálið ekki byssurnar. Þetta er svo sem rétt svo langt sem það nær, en það nær bara mjög stutt. Það er lykilatriði að bilaður einstaklingur geti ekki auðveldlega náð sér í vopn til að framkvæma voðaverk.

Það hanga margir á einhverju ákvæðu bandarísku stjórnarskrárinnar sem þeir túlka þannig að öllum sé frjálst að bera vopn sér til varnar. Sennilega er þetta rétt túlkun. Það sem aftur er galið er að menn skuli líta á þetta sem svo heilagt rit að engu megi breyta og ekkert betrumbæta í ljósi sögunnar og að fenginni reynslu. Bandaríska stjórnarskráin er að mörgu leyti ágætis plagg, hefur reyndar verið breytt hátt í þrjátíu sinnum, en að líta svo á að hver einasta setning hafi verið óskeikul og eigi við um alla eilífð er út í hött. Mig grunar meira að segja að þeir sem stjórnarskrána skrifuðu á sínum tíma væru löngu búnir að breyta þessu væru þeir enn á lífi. Sú hugsun að verja rétt bilaðra einstaklinga til fjöldamorða hefur varla verið tilgangur þeirra, hvað þá að það hafi samræmst þeirra hugsjónum.

Mér varð oft hugsað til þessa frasa þegar sömu stjórnvöld og kyrjuðu þennan söng réðust til atlögu við harðstjóra vegna ætlaðra gereyðingarvopna. Samkvæmt þeirra eigin (hunda)lógík þá eru gereyðingarvopn ekki hættuleg, bara leiðtogar sem eru tilbúnir til að nota þau.

PS. Svona í ljósi athugasemda. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé eina skýringin á sí endurteknum fjöldamorðum í Bandaríkjunum. Það hvarflar ekki að mér að það sé til einhver töfralausn. Og ég er heldur ekki að mæla með yfirdrifinni forsjárhyggju. En á meðan nánast hver sem er getur pantað öflug morðvopn hjá „póstverslun“, svarti markaðurinn blómstrar og litlar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá vopnin… þá getum við búist við að svona harmleikur endurtaki sig.