Posts Tagged ‘Alexandra Briem’

Leiðir skilja við Pírata

Posted: nóvember 29, 2025 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:,

Þá á ég ekki lengur samleið með Pírötum..

Þetta hefur reyndar verið sérstakt samband, hreyfingin varð til í einfeldningslegri og beinlínis hættulegri baráttu gegn höfundarrétti – ég reifst talsvert við marga liðsmenn á sínum tíma.

En þrátt fyrir nafnið þá fjaraði þetta út – eftir stóð barátta fyrir heiðarlegum stjórnmálum, gagnsæi, mannréttindum og nýrri stjórnarskrá. Allt hlutir sem mér fundust mjög mikilvægir. Ekki spillti hversu öflugir einstaklingar voru í starfi og framboði fyrir Pírata (best að nefna engin nöfn, ég myndi gleyma einhverjum sem ætti skilið að ég nefndi).

En í dag var Alexöndru Briem hafnað í formannskjöri. Ekki ætla ég að láta eins og það skipti ekki máli að Alexandra er dóttir mín en það er ekki aðalatriðið.

Það sem ég get ekki sætt  mig við er að Alexandra hefur verið ótrúlega dugleg að vinna að stefnu flokksins, óþreytandi að starfa innan félagsins, sívinnandi fyrir kosningar að styðja frambjóðendur – hvort sem hún var sjálf í framboði eða ekki.

Og Alexandra hefur unnið mjög vel í borgarstjórn Reykjavíkur síðustu kjörtímabil, ekki auðvelt starf og auðvitað ekki hægt að gera svo öllum líki – en ég held að ég geti fullyrt að hún hafi verið vel liðin af samherjum, andstæðingum og samstarfsfólki.

Píratar eru í vandræðum, eftir slaka kosningu fyrir ári síðan.

Ég held að dagar Pírata séu taldir ef þetta er hugarfarið, vanþakklæti og vantraust eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann.

Mögulega væru Píratar ekki í vandræðum ef þeir sem töldu rétt að taka þátt í að kjósa formann hefðu verið virkir í starfi flokksins.

Ég styð dótturina, Alexöndru Briem, (að sjálfsögðu) í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki bara vegna þess að hún er dóttir mín, heldur einfaldlega vegna þess að hún á fullt erindi í borgarstjórn.

Þetta er ekki flókið, hún er málefnaleg, sem þýðir að hún kynnir sér málefni áður en hún tekur afstöðu og hlustar á rök með og á móti.

Hún er dugleg, hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Pírata, störfin þar eru gott dæmi um að hún kemur hlutum í verk og klárar þau verkefni sem þar að vinna.

Heiðarleg og vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag.

Sem sagt, allt sem við þurfum á að halda hjá þeim sem við viljum að vinni fyrir okkur.

Nú er það reyndar þannig að það er mikið úrval af góðu fólki í framboði í prófkjörinu og ég hvet alla til að kynna sér frambjóðendur og taka þátt.