Ég get ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna næstu árin.
Ástæðan er kjör trúðsins til forseta í nóvember.
Ekki frekar en að ég gat ekki hugsað mér að fara á HM í fótbolta 2018.
Ekki veit ég alltaf hvar á að draga mörkin.. ég heimsótti til dæmis Bandaríkin í upphafi fyrri forsetatíðar gaursins – en bæði var búið að ákveða og greiða fyrir þá ferð löngu fyrr og ástandið ekki eins svakalegt og núna.
Nú veit ég vel að Bandaríkin er samband margra ólíkra ríkja og stuðningur við hann mis mikill á milli ríkja.
En það breytir því ekki að það er eitthvað verulega ógeðfellt við að hann hafi verið kjörinn.
Sannarlega rasisti, fasisti, kvenfyrirlitningin greinileg, frekar heimskur, verulega fáfróður og beinlínis helsjúkur raðlygari. Og þetta mat mitt byggir eingöngu á því sem ég hef beint frá honum af samfélagsmiðlum, ákvörðunum, framboðsfundum og viðtölum.
Sennilega réðu efnahagsmál, eða misskilningur á stöðu þeirra, atkvæðum eða atkvæðaleysi ansi margra. Það voru jú talsvert færri sem greiddu honum atkvæði núna en fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að fleiri mættu kjósa, en það voru bara enn færri sem nenntu að hafa fyrir því að kjósa gegn honum. Það er einhver huggun, en ekki mikil að hann fékk þó ekki meirihluta atkvæða.
Hann spilar auðvitað á vanþekkingu, fáfræði, mannfyrirlitningu og fordóma. Og kemst upp með það. Þar liggur vandinn.
En það er ekki eingöngu kosningarnar, það er einhver svakalegur aumingjagangur þarna vestanhafs að ekki sé búið að koma honum á bak við lás og slá fyrir löngu.. dæmdur glæpamaður og ekki ólíklegt að hann hafi verið sekur um landráð í tveimur ólíkum málum.
Ekki má gleyma að hann ber auðvitað ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum fjölda manns eftir Covid, við fáum sennilega seint að hversu margir misstu lífið vegna áróðurs sem byggðist fáfræði og heimsku.
Lengi vel stögluðust stuðningsmenn hans á því að hann hefði ekki hafið neitt stríð.
En nú gengur stjórnlaust gasprið í þessum vanvita út á að beita hervaldi gegn nokkrum nágrannaríkjum. Fasismi, rasismi, útlendingafordómar – þetta hafa lengi verið “vörumerkin” – og nú bætast kröfur um landvinninga við – samlíkingin við Þýskaland Hitlers er orðin raunveruleg.
Ég óttast að sagan frá seinni heimsstyrjöldinni geti endurtekið sig.