Sarpur fyrir janúar, 2025

Ekki til áttavillta vestursins

Posted: janúar 19, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna næstu árin.

Ástæðan er kjör trúðsins til forseta í nóvember.

Ekki frekar en að ég gat ekki hugsað mér að fara á HM í fótbolta 2018.

Ekki veit ég alltaf hvar á að draga mörkin.. ég heimsótti til dæmis Bandaríkin í upphafi fyrri forsetatíðar gaursins – en bæði var búið að ákveða og greiða fyrir þá ferð löngu fyrr og ástandið ekki eins svakalegt og núna.

Nú veit ég vel að Bandaríkin er samband margra ólíkra ríkja og stuðningur við hann mis mikill á milli ríkja.

En það breytir því ekki að það er eitthvað verulega ógeðfellt við að hann hafi verið kjörinn.

Sannarlega rasisti, fasisti, kvenfyrirlitningin greinileg, frekar heimskur, verulega fáfróður og beinlínis helsjúkur raðlygari. Og þetta mat mitt byggir eingöngu á því sem ég hef beint frá honum af samfélagsmiðlum, ákvörðunum, framboðsfundum og viðtölum.

Sennilega réðu efnahagsmál, eða misskilningur á stöðu þeirra, atkvæðum eða atkvæðaleysi ansi margra. Það voru jú talsvert færri sem greiddu honum atkvæði núna en fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að fleiri mættu kjósa, en það voru bara enn færri sem nenntu að hafa fyrir því að kjósa gegn honum. Það er einhver huggun, en ekki mikil að hann fékk þó ekki meirihluta atkvæða.

Hann spilar auðvitað á vanþekkingu, fáfræði, mannfyrirlitningu og fordóma. Og kemst upp með það. Þar liggur vandinn.

En það er ekki eingöngu kosningarnar, það er einhver svakalegur aumingjagangur þarna vestanhafs að ekki sé búið að koma honum á bak við lás og slá fyrir löngu.. dæmdur glæpamaður og ekki ólíklegt að hann hafi verið sekur um landráð í tveimur ólíkum málum.

Ekki má gleyma að hann ber auðvitað ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum fjölda manns eftir Covid, við fáum sennilega seint að hversu margir misstu lífið vegna áróðurs sem byggðist fáfræði og heimsku.

Lengi vel stögluðust stuðningsmenn hans á því að hann hefði ekki hafið neitt stríð.

En nú gengur stjórnlaust gasprið í þessum vanvita út á að beita hervaldi gegn nokkrum nágrannaríkjum. Fasismi, rasismi, útlendingafordómar – þetta hafa lengi verið “vörumerkin” – og nú bætast kröfur um landvinninga við – samlíkingin við Þýskaland Hitlers er orðin raunveruleg.

Ég óttast að sagan frá seinni heimsstyrjöldinni geti endurtekið sig.

Ég á talsvert af vinum, kunningjum og ættingjum sem hafa – að mér finnst – ansi skrýtnar skoðanir.

Margir trúa (nánast) hverri einustu samsæriskenningu sem þeir sjá/heyra eins og nýju neti. Það er svona að miklu leyti í lagi mín vegna.

Það eru þó nokkrar undantekningar á þessu.

Ég hef ekki þolinmæði fyrir því þegar fólk er stöðugt að áreita mig með furðulegum fullyrðingum, sérstaklega ekki ef hrokinn, yfirlætið og sjálfumgleðin eru með í för – frekar hvimleiður kokteill. Ég hef leyft góðum vinum að hanga inni á Facebook vinalistanum, aðrir hafa farið.

Ég hef svo heldur enga þolinmæði fyrir því þegar fólk kynnir rangfærslur og staðleysur sem “skoðanir”. Fullyrðingar sem auðvelt er að afsanna og hafa fyrir löngu verið afskrifaðar.

Mannfyrirlitning dulbúin sem skoðanir er annað sem ég umber ekki. Það er, því miður, talsvert um það, sérstaklega gagnvart transfólki og LGTB.

Og svo eru rangfærslur, settar fram sem skoðanir, og eru beinlínis hættulegar, td. sú botnlausa heimska að afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ég hef setið undir

  • ítrekuðum fullyrðingum um ellefta-september, sem standast enga skoðun (ég hef engar sannanir til eða frá fyrir atburðarásinni, en engar af þeim upplýsingum/fullyrðingum sem eiga að sýna fram á einhvers konar samsæri standast skoðun)
  • glórulausri afneitun á staðreyndum um loftslagsbreytingar, það er nú ekki eins og það sé flókið að fylgjast með eða erfitt að átta sig á fyrirliggjandi gögnum
  • fullyrðingum um að Boeing hafi staðið á bak við Covid-19, man ekki samhengið – en vitlausara verður það varla
  • þráhyggju fyrir því að svindlað hafi verið á drullusokknum sem náði aftur kjöri sem forseti vestanhafs, þrátt fyrir að fáar fullyrðingar hafi verið eins afdráttarlaust afsannaðar
  • að bólusetningar í Laugardalshöll hafi verið nákvæmlega eins og fundir hjá Hitlers-æskunni, ekki bara svipaðar, heldur “nákvæmlega eins”
  • allt ruglið og fáfræðin sem hafnar bólusetningum
  • á ég að nefna eðlufólkið?
  • eða þoturákirnar?
  • fullyrðingar um Hilary Clinton og einhvers konar barnaníð demókrata

Þegar einhver er að halda þessu fram við mig – eða einhverjum nýjum kenningum sem standast ekki einföldustu skoðun – þá er við viðkomandi einfaldlega að gera lítið úr sjálfum/sjálfri sér í mínum huga.

Áramót

Posted: janúar 1, 2025 in Spjall
Efnisorð:

Gleðilegt ár og takk fyrir margar frábærar stundir á árinu sem var að líða.

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að detta í áramótagír, geri til að mynda aldrei áramótaheit… ef mér finnst eitthvað þurfa að breytast þá reyni ég að breyta því án tillits til dagsetningarinnar.

En auðvitað staldra ég við, hugsa til allra góðu stundanna á liðnu ári, sem voru mjög margar í þetta sinn og hugsa aðeins til komandi árs.

Í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér (og er að verða 66 ára) er ég ekki spenntur og fullur tilhlökkunar, heldur verð ég að viðurkenna að komandi ár lítur ekkert sérstaklega vel út og margar viðvörunarbjöllur hringja. Jú, vonandi halda kynnin af elsta barnabarninu áfram að gefa, vonandi verður jafn gaman að kynnast því nýjasta og svo hlakka ég til þegar það þriðja kemur í heiminn.

Kannski ekki beinlínis svartsýni og langt frá því að vera einhvers konar þunglyndi, en það eru margar vísbendingar um að árið verði erfitt. Sennilega lítið annað að gera en að taka því sem kemur og bregðast eins vel við og kostur er.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér. [nokkuð sem gerist auðvitað sára sjaldan Smile ]