Sköpuð og/eða flöt jörð

Posted: ágúst 4, 2013 in Trú, Umræða

Fyrir margt löngu höfðu menn ekki miklar upplýsingar um jörðina og himingeiminn… tæki og aðstaða til rannsókna voru einfaldlega ekki til staðar. Þannig var drógu forfeður okkar þá ályktun að jörðin væri flöt og að sól og himintungl snerust í krinum þennan miðpunkt heimsins. Þá hafði fólk ekki hugmyndaflug i annað en að einhver hlyti að hafa skapað jörðina og ýmsar getgátur voru í gangi um hvernig sú sköpun hefði gengið fyrir sig – oftast voru skapararnir tiltölulega líkir mannskepnunni, en með einhvers konar ofurkrafta eða eiginleika.

Það er svo sem ansi langt síðan það rann upp fyrir einhverjum að það væri mögulegt að jörðin væri ekki flöt. Og sama gildir um gang himintungla, það kom í ljós að jörðin var ekki miðpunkturinn. Þekkingin hafði betur og (nánast) enginn heldur því fram í dag að jörðin sé flatur miðpunktur alheimsins. Nánast, því það er jú enn eitthvað sem kallast „Flat Earth Society“ (ef ég man rétt) og er ekki brandari (ef ég skil rétt).

Það hafa svo komið talsvert betri skýringar á mögulegu upphafi heimsins en gamall, geðsitirður, úrillur skapari. Enn eru jú til hópar sem svara til Flat Earch Society og halda sig við upphaflegar kenningar.

Það er hins vegar merkilegt að þrátt fyrir að kenningar um sköpun gangi augljóslega ekki upp þá er enn ansi stór hópur sem vill samt halda í hugmyndina um einhvers konar guð / skapara. Nú er farið að toga og teygja þessa hugmynd yfir í eitthvað allt annað óljóst og illa skiljanlegt. Allt sem áður var bókstaflegt er orðið að líkingamáli til að breiða yfir að þetta stenst ekki skoðun og augljóst að þetta byggir á vandræðalegum tilraunum fáfróðra forfeðra til að skilja heiminn… í öllum sínum vanmætti, með takmarkaðar upplýsingar og þekkingu. Auðvitað finnst mér fáfræðin nokkuð augljós og get látið hana fara í taugarnar á mér stöku sinnum – ef ég á að vera alveg hreinskilinn – en reyni nú oftast að vera umburðarlyndur og sætta mig við að hver má hafa sína skoðun og sína trú.

Það sem fer kannski í taugarnar á mér er þegar boðberar þykjast vera eitthvað betri en hin, telja sig meiri andans menn, telur sínar hugmyndir eitthvað æðri, háleitari, jafnvel göfugri allt vegna þess að þeir aðhyllast hugmyndir sem löngu er búið að sýna að byggja ekki á neinu. Og jú, líka, þegar ég þarf að borga fyrir rekstur heillar stofnunar í kringum þetta.

Fyrir mér virkar þetta nefnilega eins og menn væru stöðugt að slá sig til riddara í pistlum og greinaskrifum með því að tala um að jörðin sé nú auðvitað flöt.

Og að það væri ríkisrekin stofnun í kringum þá kenningu að jörðin sé flöt.

Og ef ég malda í móinn þá eru viðbrögðin ofsafengin og uppnefnin koma á færibandi.

Jafnvel Háskóla Íslands finnst í góðu lagi að gera mér upp kynþáttafordóma.

Athugasemdir