Hugtakið „húmanismi“ hefur flækst fyrir mér í gegnum tíðina. Ég hafði hálfpartinn skömm á þessu hugtaki í gamla daga, einfaldlega vegna þess að þær tunnur sem buldi hvað hæst í um gildi húmanismans reyndust innantómar þegar kom að eigin hegðun.
Á hinn bóginn er ég meðlimur í Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi – og fyrir mig eru þær lífsskoðanir mikils virði. Ég reyni hins vegar að taka það til mín – þó eflaust mætti ganga betur – frekar en að messa yfir öðrum.
Nóg um það.
Stjórnmálaflokkur sem byggir á þessum hugmyndum er að mínu viti jafn fráleitur og kristilegur flokkur eða flokkar sem byggja á hvers kyns öðrum trúarhugmyndum. Þetta er einfaldlega sitt hvor hluturinn, fólk getur verið hvar sem er í stjórnmálaflokki og aðhyllst ólíkar lausnir, til dæmis, í efnahagsmálum, hvort sem þeir telja sig húmanista eða ekki.
En svo get ég nú heldur ekki kosið þau vegna fáránlegra stefnumála eins og banka án vaxta og að óheimilt verði að bera fólk út af heimilum (jú, það á að vera erfitt og það á að þurfa mikið til, en ekki ómögulegt).
Húmanismi er sú stefna að helsta markmiðið sé velferð mannfólks, að þó við tökumst á við önnur verkefni, þá sé það grunngildið og það sem öll önnur verkefni eigi að styðja við beint eða óbeint.
Það finnst mér í raun eina lífsspekistefnan sem meikar sense, og allt í lagi að setja í samband við stjórnmál og samfélagsmál.
Hins vegar er ég ekki viss um að Húmanistaflokkurinn sé endilega góður fulltrúi þeirrar stefnu.
Það er rétt, en ég á við að það má til dæmis nálgast mismunandi lausnir á efnahagsmálum með „húmanisma“ að leiðarljósi.