Posts Tagged ‘Fréttir’

Myndskreytingar frétta

Posted: júlí 24, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég geri mér grein fyrir nauðsyn þess að fjalla vel um athafnir og orð ónefnds fávita sem situr að völdum hér ekki langt frá og hvers nafn ég tek mér hvorki í munn né set "á blað".

Mér finnst eðlilegt og um að gera að gera vel grein fyrir núverandi atburðarás þar sem allar líkur
eru á að ferill viðkomandi sé að kafna í eigin ælu. Smjörklípudjöfulgangurinn við að reyna að beina athyglinni í einhverjar aðrar áttir er hlægilegur og virkar ekki.

En kæru vinir og félagar og samstarfsfélagar á fréttamiðlum – væruð þið til í að sleppa því að skreyta fréttir með myndum og myndbrotum af kvikindinu? Ég bara get ekki lengur horft á smettið á þessum dæmda glæpamanni, sem ég fæ ekki betur séð en bíði dóms fyrir kynferðisbrot og jafnvel barnaníðs (ætla ekki að fullyrða, ég geri meiri kröfur um sannanir en stuðningsmenn hans).

Ég hef amk. ákveðið að taka mér viku frí frá hverjum þeim fréttamiðli sem sýnir mér andlitið á þessu úrþvætti.

Endalaus frétt

Posted: desember 6, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég var að hlusta á tíufréttir RÚV áðan. Þar var fyrsta frétt um áberandi dómsmál. Sagt var að vitni hefði mætt í dag sem ekki mætti í gær (eða fyrradag) og farið út í hvaða skýringar vitnið gaf á fjarverunni og hvað dómaranum fannst um þær skýringar.

Síðan var sagt að saksóknari hefði spurt vitnið hvort það hefði vitað að til stæði að gjaldfella ákveðið lán.

Þá var útskýrt hvers vegna þessi hugsanlega gjaldfelling skipti máli.

En það var ekki sagt hverju vitnið svaraði!

Og kannski enn umhugsunarverðara, ég var í rauninni ekki hissa, svona endaslepptar fréttir eru, því miður, allt of algengar.

PS. jú, það er mögulegt, þó langsótt sé, að vitnið hafi ekki verið búið að svara þegar fréttin fór í loftið – en þá hefði verið lágmark að taka það fram.