Sarpur fyrir mars, 2025

Rétt og skylt að óska Víkingum aftur til hamingju með árangurinn í Evrópu, vel gert og skilar sér í íslenskan fótbolta.

Breiðablik og Víkingur – og kannski KA eitt skiptið – hafa verið í fararbroddi íslenskra liða í Evrópu síðustu árin og árangurinn skilar sé í íslenskan fótbolta, fleiri íslensk lið fá þátttökurétt í Evrópukeppnum og við fáum fleiri leiki.

Kvennalið Breiðabliks var auðvitað fyrst íslenskra liða til að komast í riðlakeppni meistaradeildar Evrópu.

Karlalið Breiðabliks náði svo sögulegum árangri 2023 þegar liðið varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í riðlakeppni Evrópumóts.

Og í fyrra (og reyndar aðeins inn í 2025) náðu Víkingar mjög góðum árangri í breyttu fyrirkomulagi Sambandsdeildar Evrópu.

Það er mikið talað um og mikið gert úr því – aðallega af stuðnings- og forsvarsmönnum Víkinga Smile – að Víkingar hafi náð lengst allra íslenskra lið í Evrópu. En bæði liðin voru reyndar í síðasta áfanga fyrir 16 liða úrslitin, Víkingar vissulega nær því að fara áfram en leið Blika talsvart erfiðari.

Ef við skoðum aðeins tvö síðustu tímabil þá spiluðu bæði liðin jafnmarga leiki í Evrópumótum, Breiðablik vann 7, Víkingar unnu 6. Breiðablik átti talsvert erfiðari andstæðinga, stuðull UEFA á andstæðingum Blika var 336 en Víkinga 136. (Ég veit vel að þessir stuðlar hafa sínar takmarkanir og eru villandi í einstaka tilfelli, en að jafnaði er þetta ágætur mælikvarði og sá mælikvarði sem UEFA notar).

Svo má líka hafa söguna aðeins á bak við eyrað. Liðum og tækifærum hefur fjölgað mjög mikið í Evrópukeppnum síðustu áratugina. Það er eiginlega ekki hægt að bera árangurinn í dag saman við árangur íslenskra liða á síðustu öld. Með því fyrirkomulagi sem var hér áður hefðu Víkingar dottið út í fyrstu umferð og Blikar í fjórðu árið áður.

Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr árangri Víkinga, en er aðeins að láta trufla mig að mér finnst verið að tala niður árangur Blika.

En þar fyrir utan, hlakka til að sjá bæði lið – og vonandi fleiri – gera enn betur á næsta tímabili.

Nágranninn

Posted: mars 1, 2025 in Spjall
Efnisorð:, ,

Það rifjast upp saga af fjölskyldu í litlu þorpi.

Einn nágranninn, Tinni P., nokkuð vel stæður og þekktur ofbeldismaður, réðist inn til fjölskyldunnar, byrjaði reglulega að ræna og rupla og beita grófu ofbeldi.

Flestir aðrir í nágrenninu reyndu að koma til hjálpar en það var erfitt að eiga við ofbeldismanninn, enda vel stæður og átti nokkra vini í þorpinu, “vini” sem hann hafði undir hælnum.

Af þeim sem reyndu að hjálpa var ein fjölskylda hvað sterkust og gerði þokkalegt gagn. En fjölskyldufaðirinn féll frá og elsti sonurinn, Donni T., tók við.

Donni T. kenndi fjölskyldunni um að ráðist hefði verið á þau. Það væri á þeirra ábyrgð að þorpið myndi mögulega standa í ljósum logum. Það kom reyndar ekki fram hvernig hann komst að þessari niðurstöðu, en hann talaði fjálglega og af mikilli sannfæringu.

Svo fór Donni T. að heimta að fjölskyldan afhenti honum lífeyrisjóði og sparnað allra fjölskyldumeðlima. Donni T. var svo sem ekkert að lofa að koma í veg fyrir að fjölskyldan yrði fyrir frekari árásum og ránum, enda augljóslega fjölskyldunni að kenna að ráðist hefði verið á þau.

Sögusagnir um að Tinni P. hefði upplýsingar um Donna T. voru ekki að hjálpa til.. hvað þá sögusagnir um að Donni T. væri í vinnu hjá Tinna P.

Þegar fjölskyldan afþakkaði kostaboðið að afhenta allan lífeyrissparnaðinn hellti Donni T. sér yfir fjölskylduna, kallaði öllum illum nöfnum, sagði þau vanþakklát og illa til fara.

Annar nágranninn var eitthvað að benda Donna T. á að það væri nú ekki beinlínis fallegt að nýta sér neyð fjölskyldunnar til að sanka að sér eigum þeirra – og það án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Donni T. fór í smábarnafýlu og talaði ekki við þann nágranna aftur…