Posts Tagged ‘staðreyndir’

Ég á talsvert af vinum, kunningjum og ættingjum sem hafa – að mér finnst – ansi skrýtnar skoðanir.

Margir trúa (nánast) hverri einustu samsæriskenningu sem þeir sjá/heyra eins og nýju neti. Það er svona að miklu leyti í lagi mín vegna.

Það eru þó nokkrar undantekningar á þessu.

Ég hef ekki þolinmæði fyrir því þegar fólk er stöðugt að áreita mig með furðulegum fullyrðingum, sérstaklega ekki ef hrokinn, yfirlætið og sjálfumgleðin eru með í för – frekar hvimleiður kokteill. Ég hef leyft góðum vinum að hanga inni á Facebook vinalistanum, aðrir hafa farið.

Ég hef svo heldur enga þolinmæði fyrir því þegar fólk kynnir rangfærslur og staðleysur sem “skoðanir”. Fullyrðingar sem auðvelt er að afsanna og hafa fyrir löngu verið afskrifaðar.

Mannfyrirlitning dulbúin sem skoðanir er annað sem ég umber ekki. Það er, því miður, talsvert um það, sérstaklega gagnvart transfólki og LGTB.

Og svo eru rangfærslur, settar fram sem skoðanir, og eru beinlínis hættulegar, td. sú botnlausa heimska að afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ég hef setið undir

  • ítrekuðum fullyrðingum um ellefta-september, sem standast enga skoðun (ég hef engar sannanir til eða frá fyrir atburðarásinni, en engar af þeim upplýsingum/fullyrðingum sem eiga að sýna fram á einhvers konar samsæri standast skoðun)
  • glórulausri afneitun á staðreyndum um loftslagsbreytingar, það er nú ekki eins og það sé flókið að fylgjast með eða erfitt að átta sig á fyrirliggjandi gögnum
  • fullyrðingum um að Boeing hafi staðið á bak við Covid-19, man ekki samhengið – en vitlausara verður það varla
  • þráhyggju fyrir því að svindlað hafi verið á drullusokknum sem náði aftur kjöri sem forseti vestanhafs, þrátt fyrir að fáar fullyrðingar hafi verið eins afdráttarlaust afsannaðar
  • að bólusetningar í Laugardalshöll hafi verið nákvæmlega eins og fundir hjá Hitlers-æskunni, ekki bara svipaðar, heldur “nákvæmlega eins”
  • allt ruglið og fáfræðin sem hafnar bólusetningum
  • á ég að nefna eðlufólkið?
  • eða þoturákirnar?
  • fullyrðingar um Hilary Clinton og einhvers konar barnaníð demókrata

Þegar einhver er að halda þessu fram við mig – eða einhverjum nýjum kenningum sem standast ekki einföldustu skoðun – þá er við viðkomandi einfaldlega að gera lítið úr sjálfum/sjálfri sér í mínum huga.