Ég efast um að innrásin til að taka yfir stjórn Venesúela hafi verið til að beina athyglinni frá skjölum sem sannreyna mikla og nána vináttu forsetans vestanhafs við helsta skipuleggjanda mansals síðustu áratuga – að ógleymdum nokkuð öruggri vissu um barnaníð. Það hefur einfaldlega komið í ljós að stuðningsmönnum forsetans er slétt sama um barnaníð, þetta var einfaldlega þeirra „verkfæri“ í baráttunni til að vinna síðustu forsetakosningar, þar sem öll meðöl voru leyfileg. Sumir hafa þóst kaupa fráleitar, hlægilegar og mótsagnakenndar skýringar. Aðrir hafa beinlínis viðurkennt að þeim sé slétt sama þó gaurinn hafi misnotað börn.. hann sé jú að sinna mikilvægri baráttu fyrir kristilegum gildum.
Ég held að þetta hafi snúist um að það kom fram daginn áður að kynntar voru upplýsingar um að það væri hafið yfir allan vafa að gaurinn hafi staðið á bak við valdaránstilraun fyrir fimm árum. Og kannski enn verra fyrir meðlimi sértrúarsafnaðarins.. hann hafi oftar en einu sinni viðurkennt að hafa skíttapað kosningunum 2020.
Þannig að ég ætlaði að leggja til að Grænlendingar og Danir og Íslendingar gætu dregið andann rólega í einhverja mánuði, að minnsta kosti þar til fáfróða, getulausa, spillta, viðriðnið ætlaði sér að reyna að aflýsa kosningunum næsta haust – og klára endanlega að breyta ríkinu sem stærir sig af forystu í lýðræði í einræðisríki.
En svo kom þetta skelfilega morð vanhæfu klikkhausanna í sérsveitum forsetans og blákaldar og óskammfeilnar lygar hans um atburðarásina.
Þannig að mig grunar að ekki sé langt í næstu innrás í fullvalda ríki frá sjálfskipuðum „friðarsinna“.
Hefði einhver reynt að skrifa bók fyrir nokkrum áratugum sem lýsti svona atburðarás hefði hún verið hlegin út af borðinu. Sérstakt að þurfa að upplifa þetta…