Kannski er kominn tími til að taka hlé frá því að horfa á og fylgjast með fótbolta.
Auðvitað skiptir fótbolti ekki miklu svona fyrir gang heimsmála en mér hefur nú samt fundist gaman að horfa á góðan fótbolta – ekki síst síðustu árin þegar Blikar hafa (ekki bara konurnar) náð frábærum árangri og spilað skemmtilegan fótbolta.
Það hefur nú reyndar ekki verið gefandi að fylgjast með “mínum mönnum” á Englandi, þeas. Derby County, en nálgun Arsene Wenger hjá Arsenal heillaði mig og ég fór svona að halda með þeim í efstu deild. Enda mikið af stuðningsmönnum þeirra í fjölskyldunni.
En það eru nokkur atriði sem hafa verið að drepa áhugann.
Fyrir það fyrsta þá er ég algerlega búinn að fá nóg af “molbúahættinum” í dómgæslu hér á landi og að dómarar séu ekki fyrir löngu komnir með nauðsynlega lágmarksaðstoð. Þetta er svolítið eins og að horfa á bíl á sumardekkjum fastan í snjóskafli.
Ekki hjálpa síðustu atburðir hjá Blikum þar sem mér hefur fundist furðulega staðið að þjálfaramálum og ekki til marks um þá langtíma framtíðar sýn á hvernig á að þróa liðið áfram og vanda val þjálfara..
Annars staðar hefur hegðun Arsenal dregið verulega úr áhuga mínum á félaginu, auðvitað þegar allt stefnir í gott tímabil.
En ég er svo furðulegur þegar kemur að fótbolta, að það skiptir mig miklu meira máli að hafa umhverfið í lagi, að liðin spili góðan og skemmtilegan fótbolta. Árangur talinn í titlum er minna atriði. Gott og vel, ekki ætla ég að reyna að segja að titlar og árangur í Evrópu skipti engu máli, en það er meira virði sem afleiðing af því að spila vel – frekar en að tuddast í gegnum einhverja sigra með Melavallar spark-og-spretta bolta og fá hvað eftir annað vafasamar ákvarðanir dómara eftir að hafa hamast í dómurum með hallærislegum leiksýningum.