Nú er ég eitthvað að nálgast það að fara að verða tilbúinn til að ákveða hvernig ég kýs í komandi forsetakosningum, enda þarf ég að kjósa frekar snemma vegna Frakklandsferðar okkar.
Ég lagði fram nokkrar spurningar til allra frambjóðenda um atriði sem skipta mig máli en fékk ekki eitt einasta svar.
Ég er ekki alveg búinn að ákveða mig, en sex eru að mestu út úr myndinni hjá mér en þrír koma enn til greina.
Andri Snær virðist hafa hjartað á réttum stað og einlægan áhuga á framtíð lands og þjóðar. Hann kom tiltölulega vel út úr einhvers konar prófi á Rúv. Margir vinir og kunningjar mæla eindregið með honum, nokkuð sem telur alltaf. Hins vegar er framtíðarsýnin kannski ekki á verksviði forseta, nema svona sem móralskur stuðningur og jafnvel er ég nú ekki viss um að ég deili henni með honum – þeas. ég er auðvitað sammála um mikilvægi þess að umgangast náttúruna vel, en kannski ekki alltaf á sömu blaðsíðu með nálgun. Þá hefur hann látið frá sér fara ansi vafasamar fullyrðingar, virðist velja sér upplýsingar sem honum henta og stilla upp á blekkjandi hátt – góður málstaður þarf ekki þannig málsvara. Mér finnst svo ekki traustvekjandi að sjá frambjóðenda lýsa því að hann leiti til „guðs“ þegar mikið liggur við. Hann kemur til greina, jafnvel eftir frekar vandræðalegt / hallærislegt kynningarmyndband – enda sennilega beint til annarra en mín – en er kannski fyrstur út af þeim sem eftir eru.
Ástþór er óneitanlega mjög sérstakur, friður virðist vera hans hjartans mál – og hann virðist heill í því og ódrepandi baráttumaður. Aðferðirnar sem hann beitir eru hins vegar full groddalegar, barnalegar og einfaldlega fráhrindandi fyrir forseta. Það að fara í mál við Láru Hönnu (eða hóta því), illskiljanlegt talið um Úkraínu, að ég tali nú ekki um þetta fjas um að fjölmiðlar stýri hverjir eiga möguleika. Þá gat ég ekki betur heyrt en að þessi mikli mannvinur væri afar ósáttur við frumvarp styrkir stöðu flóttamanna – kannski var ég að misskilja.. sem aftur er kannski það ástæðan fyrir því að hann fær lítið fylgi – honum gengur eiginlega ekkert að gera sig skiljanlegan.
Davíð var kannski aldrei líklegur hjá mér en ég vildi ekkert útiloka í upphafi. Hann átti nú eitt og annað jákvætt þegar hann var borgarstjóri og forsætisráðherra. Hann á svo margt neikvætt líka en ég hefði skoðað í fullri alvöru að „afskrifa“ það ef hann hefði farið með smá reisn í kosningabaráttuna, sleppt töktum gamla þrasgjarna stjórnmálamannsins, sýnt smá auðmýkt, svarað málefnalega og jafnvel beðist afsökunar á því sem hefði mátt fara betur. Ég hef meira að segja að einhverju leyti skilning á mörgum erfiðum ákvörðunum sem hafa kannski ekki reynst vel, en þá er einmitt mikilvægt að „hreinsa loftið“. En, það gekk víst ekki eftir.
Kosningabarátta hans hefur einkennst af aðferðafræði gamla stjórnmálamannsins, þrasi með tilheyrandi útúrsnúningum við málefnalegum spurningum, kryddað með frekar máttlausum athugasemdum við aðra frambjóðendur.
TIME setti hann á sínum tíma á topp lista yfir þá sem báru ábyrgð á hruninu. Kannski ósanngjarnt, kannski ofmat, en heimurinn er ekki alltaf sanngjarn og mér finnst við illa geta boðið upp á forseta sem hefur þessa ímynd á alþjóðavísu – einhver myndi nota hugtakið „óheppilegt gluggaskraut þjóðarinnar“, þó ég geri það ekki.
Þá hefur hann tamið sér afskaplega hvimleiðan ósið, fyrst og fremst á ritstjórastóli, að uppnefna og gera lítið úr fólki sem eru honum ósammála. Þetta gengur einfaldlega ekki hjá forseta.
Einhver hefði sagt, „hann kann sig ekki“. Og það er nú lágmarkskrafa til forseta, þeas. að „kunna sig“.
Elísabet Jökuls yrði örugglega skemmtilegasti og litríkasti forsetinn. Ég hef alltaf kunnað vel við hana, það litla sem ég hef kynnst henni, fínn rithöfundur og hún er engan veginn versti kosturinn. Það vill hins vegar svo til að ég er henni einfaldlega ósammála í nokkrum lykilatriðum og hún virðist daðra talsvert við einhvers konar yfirnáttúru (kannski er ég samt að misskilja húmorinn). En einhvern veginn grunar mig að henni þyki skemmtilegra að vera forsetaframbjóðandi en að hún beinlínis geri ráð fyrir að ná kjöri – en kannski minn misskilningur.
Guðni Th virðist ekki trufla marga og gæti þannig náð að vera forseti sem flestir geta sætt sig við. Mögulega eru hörðustu stuðningsmenn Davíðs þó búnir að moka sig ofan í svo djúpa holu að þeir gætu illa sætt sig við hann. Guðni fær prik fyrir að segja sig úr kaþólsku kirkjunni og hann fékk „plús í kladdann“ þegar hann fór aðeins fram úr sér í einu af fyrstu viðtölunum, tók vel gagnrýni og athugasemdum, skýrði mál sitt og dró til baka það sem ekki var rétt. Tilraunir annarra frambjóðenda til að reyna koma höggi á hann hafa verið óttaleg vindhögg um ómerkileg atriði. Þetta tal um að kristin gildi séu undirstaða lýðræðis og velferðar truflar mig aðeins, en vonandi marklaust hjal til að friða þá sem settu spurningamerki við að hann er utan trúfélaga. Þannig að Guðni kemur vel til greina hjá mér.
Guðrún Margrét tók ákvörðun um framboð með því að pota einhvers staðar í biblíuna og lesa einhver ósköp úr því. Hún talar mikið um kristnina sem hennar lykilatriði og kemur þess vegna ekki til greina hjá mér. Það að ákveða sig með handahófs uppflettingu, sem hún gefur í skyn (eða ekki, eftir viðtölum) að hún myndi gera sem forseti, bendir þar fyrir utan ekki til mikillar skynsemi við ákvörðunartöku.
Halla kemur svo sem ágætlega fyrir, lítið hægt að setja út á hana, ég get vel hugsað mér að kjósa hana og hún kom best út úr prófinu á Rúv. Þá spillir ekki fyrir að margir vinir mæla eindregið með henni. Hún á það sameiginlegt með Guðna að það eru sennilega ekki margir sem hafa neitt sérstaklega á mikið á móti henni og hún gæti orðið ágætis forseti sem tiltölulega góð sátt væri um. Einhverjar athugasemdir hafa verið gerðar við störf hennar fyrir hrun, en virðist nú ekki hafa verið stór gerandi í þeirri atburðarás og hefur svarað ágætlega fyrir það.
Hildur virðist hafa trú á einhvers konar orkustöðvum, fyrra lífi og hvers kyns hindurvitnum – á sama tíma og hún annað hvort hafnar eða skilur ekki vísindi. Það nægir mér til að geta ekki mögulega treyst henni, jafnvel þó hún hafi einlægan áhuga á að bæta stjórnarskrána. Samhengislaust röflið um óhefðbundnar lækningar og heilun nær svo auðvitað ekki nokkurri átt, svona þvæla getur beinlínis verið hættulegt og á ekkert erindi frá forseta.
Sturla er ódrepandi baráttumaður gegn því ranglæti sem hann sér. Hann virðist hins vegar ætla að nálgast forsetaembættið sem einhvers konar framkvæmdavald og þó það megi alveg ræða þá nálgun að kjósa framkvæmdavaldið beint, þá snúast þessar kosningar og þetta forsetaembætti ekki um það. Þegar við bætist að ég er einfaldlega ósammála honum í mörgum málum þá fær hann ekki mitt atkvæði. Afnám verðtryggingar sem tæki til að laga stöðu heimilanna er grundvallar misskilningur á fyrirbærinu. Hann vísar í „skoðanakönnun“ einhverrar útvarpsstöðvar sem var unnin með því að láta hlustendur hafa samband.. og virðist annað hvort halda að hún sé marktæk eða er vísvitandi með ómerkilegar blekkingar, skiptir eiginlega ekki máli hvort er.. hann á ekkert erindi í embætti forseta.