Ég hef oftar en ekki dottið inn í umræður um hvort við eigum að halda krónunni eða ekki – bæði í samræðum á Facebook og eins dúkka öðru hverju upp áhugaverður samræður um kosti og galla krónunnar.
Ég hef ekki alveg gert endanlega upp við mig hvar ég stend, ég hallast að því að við værum talsvert betur sett með Evru, en er alveg til í að hlusta á rök og skoða upplýsingar.
Stóri ókosturinn við krónuna er kannski sögulegur – trúverðugleikinn er enginn.. mögulega ætti það ekki að hafa áhrif, en staðreyndin er að það gerir það samt.
Við höfum fáránlega háa vexti, sérstaklega á húsnæðislánum og það að við höfum ekki enn náð þessu niður, eru nokkuð sterk rök fyrir öðrum gjaldmiðli.
Sterkustu rökin sem ég heyri með krónunni er að gengissveiflur auðveldi okkur að stýra í raun kaupum og kjörum – laun hækki eða lækki í sjálfu sér, launahækkanir séu alltaf erfiðar í samningum og launalækkanir kalli geti kallað á uppþot. Gengi krónunnar sé í raun besti mælikvarðinn á stöðu efnahagslífsins – eða besta stjórntækið.
Þetta er í sjálfu sér rétt svo langt sem það nær, en það nær ekki alveg nógu langt fyrir mig..
- laun hafa ekki alltaf fylgt gengi, elta það reyndar að einhverju leyti en það eru talsvert „tempraðri“ breytingar
- að „allt verði vitlaust“ ef það þarf að lækka laun, sbr. Grikkland, jú, mögulega, en
- aðstæður í Grikklandi voru bókstaflega allt aðrar en hér (það er nánast fráleitt að bera þetta saman)
- við höfum þurft að lækka laun
- og það varð „allt vitlaust“ hvort sem er þegar gengið hrundi
- síðast þegar krónan féll harkalega og varð til þess að rýra kjör verulega þá var gripið til vitlausasta fjármálagjörnings Íslandssögunnar, svokallaðrar „skuldaleiðréttingar“, oftar en ekki virðist sama fólk tala fyrir því að krónan sé góður og gildur gjaldmiðill og fannst ekkert að þessum gjörningi
- að það sé erfitt að hækka laun í samningum og betra að láta krónuna stýra, jú, mögulega, kannski sterkustu rökin, en samt…
- launaskrið kemur yfirleitt til sögunnar
- og þó það geti verið erfitt að semja um hækkun launa, þá er það einfaldlega verkefni sem þarf að leysa
- og er engan veginn það erfitt eða flókið að það vegi þyngra en kostir þess að hafa gjaldmiðil með lægri vöxtum á húsnæðislánum
- svo er gott að hafa á bak við eyrað að
- kjör og kaupmáttur eru ekki endilega það sama og laun
- ekki allt sem við kaupum og seljum er innflutt eða flutt út
- gengi krónunnar er engan veginn endanlegur mælikvarði á stöðuna
- sami gjaldmiðill kallar ekki á sömu kjör..
- einfalt dæmi er að ég borga eina og hálfa Evru fyrir stóran bjór á Krít en þarf að borga níu Evrur fyrir sams konar bjór í París
- og ekki þarf ég að nefna að laun eru engan veginn þau sömu alls staðar þar sem gjaldmiðillinn er sá sami
- miklar sveiflur á gengi krónunnar gera allar áætlanir óþarflega erfiðar, þetta á auðvitað sérstaklega við um fyrirtæki í innflutningi og útflutningi – og þó stærðargráðan sé ekki sú sama, hefur áhrif á námsfólk erlendis og þá sem vinna erlendis, það má halda því fram að sveiflurnar séu of miklar og of ýktar og þess vegna ekki í takt við raunveruleg verðmæti
Aftur, ég er ekki hundrað prósent sannfærður, en því meira sem ég hugsa og því meira sem ég skoða rökin með og á móti, því frekar hallast ég að því að við værum mun betur sett án krónunnar.
Hvað með önnur rök?
Að gengi krónunnar og verðbólga stafi af mikilli spillingu sem hér hafi viðgengist áratugum saman? Ég kaupi ekki þá skýringu að „spilling“ hafi það markmið sérstaklega að halda krónunni ónýtri og það að sú spilling hafi náð til allra stjórnvalda síðustu áratuga finnst mér ansi langsótt. Og… jafnvel þó ég keypti þau rök, þá á ég enn eftir að sjá hvernig við losnum við þá spillingu, þeas. ef rétt er að hún sé svona rótgróin.
Að stjórn efnahagsmála hafi síðustu áratugi verið í höndunum á fólki sem veit ekkert hvað það er að gera og kann ekki til verka. Þetta er heldur ekkert rosalega sennileg skýring, kannski eitthvað líklegri en spillingarkenningar, en samt ekki mikið. Og eftir stendur sama spurning, hvernig ætlum við að breyta þessu og hvaða líkur eru á því að þetta takist? Einn stuðningsmaður krónunnar stakk upp á að ráða erlenda hagfræðinga… er þá ekki einfaldara að ráða þá óbeint í gegnum Evruna ef það er allt sem þarf til?
Að þetta sé einhvers konar sjálfstæðismál. Nei, ég er ekki á því að þjóðir Evrópu séu ekki sjálfstæðar þó þær noti Evru… og þessar fullyrðingar eru nánast hlægilegar á meðan við erum í EES.
Að „við“ höfum betri stjórn og meiri áhrif með krónunni. Mögulega, en ég sé mig ekki í neinum „við“ hóp þegar kemur að stýringu efnahagsmála, ég sé ekki að ég hafi nokkur áhrif þar eða nokkur taki mark á mér frekar en þeir sem stýra Evrunni.
Sem sagt… hallast að því að henda krónunni, en er alveg til í að heyra upplýsingar og rök. En betri en ég hef heyrt hingað til.