Sarpur fyrir desember, 2024

Stjórn

Posted: desember 22, 2024 in Stjórnmál
Efnisorð:

Ég er nokkuð jákvæður gagnvart nýrri ríkisstjórn. Það virðist hafa tekist nokkuð vel til við ráðherraval, sérstaklega er ég ánægður að sjá Loga Einars í mennta- og menningarmálum, en almennt virðist nú hafa verið leiðarljós að velja fólk sem þekkti vel til hvers málaflokks. Sennilega hefði Kristrún sem fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín sem forsætisráðherra verið betri samsetning.

Þá er ég mjög sáttur við þá stefnu að leyfa þjóðinni að svara því hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Ég hefði auðvitað viljað sjá afdráttarlaust að samþykkt stjórnarskrá tæki gildi en annað virðist nú vera á nokkuð góðu róli.

Ég var ekki sérstakur stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar en auðvitað var hún ekki alslæm og þurfti að eiga við nokkuð mörg erfið verkefni. Og nokkrir ráðherrar stóðu sig mjög vel í erfiðum málum. En það var of mikið um klúður, of mikið um klaufagang og einhvers konar við-ráðum-við-megum yfirlæti.

Ég kaus Pírata og sakna þeirra af þingi, hefði vel getað hugsað mér að kjósa Viðreisn og Samfylkingin kannski komið til greina. Flokkur fólksins var ekki inni í myndinni há mér, þrátt fyrir stórt hjarta og mikinn velvilja – einfaldlega of mikil fáfræði og vanþekking í bland við innantómar fullyrðingar og útlendingafordóma. Reyndar breyttist margt á síðustu metrunum, fordómarnir viku(svona að mestu) og eitthvert innihald var í málflutningi.. þar held ég að mestu skipti að flokkurinn var nokkuð heppinn með frambjóðendur.

Rétt að taka saman vangaveltur eftir kosningarnar.

Það virðist hafa tekist að jafna fjölda þingsæta út frá fjölda atkvæða.

Það hefði ekki þurft nema 9 atkvæði til að breyta hvaða einstaklingar fengu þingsæti.

Þetta hefði gerst ef D hefði tapað 9 atkvæðum í Reykjavík suður eða eitthvert annað framboð bætt við sig 9 atkvæðum. Sama hefði gerst ef D hefði bætt við sig 9 atkvæðum í Suðvestur.

Þetta hefði haft þau áhrif að

  • Reykjavík norður: C, 3 Grímur Grímsson dettur út og D, 3, Brynjar Níelsson kemur inn
  • Reykjavík suður: D, 3, Jón Pétur Zimsen dettur út  og RS, C, 3, Aðalsteinn Leifsson kemur inn

Eflaust má finna samsetningar með fleiri en einni breytingu, en þetta er minnsta staka breytingin sem ég finn.

22.064 atkvæði fóru til flokka sem ekki fengu þingsæti, alls 45.274 nýttust ekki.

Ef 5% reglan hefði ekki verið þá hefðu úrslitin verið (hafi ég sett rétt inn)

  • B 5
  • C 10
  • D 12
  • F 9
  • J 2
  • M 8
  • P 2
  • S 14
  • V 1

Allt birt með þeim fyrirvara að ég er nývaknaður eftir langa kosninganótt, en einhver smá skekkja breytir ekki heildarmyndinni. 5% reglan er alveg glórulaus, sett á sínum tímai af stjórnmálamönnum í þeim tilgangi að fækka flokkum á þingi og auðvelda þannig þingmönnum stjórnarmyndun. Sem sagt.. auðvelda þingmönnum sem nenna ekki að vinna – réttur kjósenda til að fá fulltrúa á þing skiptir engu.