Ég er nokkuð jákvæður gagnvart nýrri ríkisstjórn. Það virðist hafa tekist nokkuð vel til við ráðherraval, sérstaklega er ég ánægður að sjá Loga Einars í mennta- og menningarmálum, en almennt virðist nú hafa verið leiðarljós að velja fólk sem þekkti vel til hvers málaflokks. Sennilega hefði Kristrún sem fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín sem forsætisráðherra verið betri samsetning.
Þá er ég mjög sáttur við þá stefnu að leyfa þjóðinni að svara því hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Ég hefði auðvitað viljað sjá afdráttarlaust að samþykkt stjórnarskrá tæki gildi en annað virðist nú vera á nokkuð góðu róli.
Ég var ekki sérstakur stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar en auðvitað var hún ekki alslæm og þurfti að eiga við nokkuð mörg erfið verkefni. Og nokkrir ráðherrar stóðu sig mjög vel í erfiðum málum. En það var of mikið um klúður, of mikið um klaufagang og einhvers konar við-ráðum-við-megum yfirlæti.
Ég kaus Pírata og sakna þeirra af þingi, hefði vel getað hugsað mér að kjósa Viðreisn og Samfylkingin kannski komið til greina. Flokkur fólksins var ekki inni í myndinni há mér, þrátt fyrir stórt hjarta og mikinn velvilja – einfaldlega of mikil fáfræði og vanþekking í bland við innantómar fullyrðingar og útlendingafordóma. Reyndar breyttist margt á síðustu metrunum, fordómarnir viku(svona að mestu) og eitthvert innihald var í málflutningi.. þar held ég að mestu skipti að flokkurinn var nokkuð heppinn með frambjóðendur.