Er kominn tími á Uber/Lyft/Bolt??

Posted: ágúst 23, 2022 in Umræða

Ég hef ekki verið neitt sérstaklega jákvæður á hugmyndir um að opna fyrir aðrar leigubílaþjónustur, kannski helst vegna þess að þjónustan hér heima hefur gjarnan verið mjög fín og umfjöllun um þessi fyrirtæki erlendis hafa nú ekki bent til að þetta sé eftirsóknarvert.

Á hinn bóginn hef ég stundum notað þessar þjónustur erlendis og ekki haft undan miklu að kvarta.

En síðustu misseri hefur verið erfitt, jafnvel nánast ómögulegt að fá leigubíl, meira að segja utan háannatíma.

Síðasta Menningarnótt var gott (eða vont) dæmi.

Við fórum í leigubílaröð í Aðalstræti, þar komu fáir bílar, fyrsta (tæpa) klukkutímann kom einn sem tók farþega úr röðinni, aðrir stoppuðu fyrr í götunni og tóku upp farþega sem voru á leiðinni í röðina.

Vinkona okkar hringdi og náði sambandi [er ekki alveg klár á við hvaða stöð] en henni var sagt að leigubílar mættu ekki keyra Aðalstrætið vegna þess að götur væru lokaðar og við þyrftum að fara upp að Landakoti. Þetta var auðvitað ekki rétt, því leigubílar, sem og aðrir voru að keyra þarna reglulega.

Gott og vel, við fórum upp að Landakoti, en þar var engan bíl að fá.

Við ákváðum að reyna strætó aftur, en enginn vagn kom.

Þá virtist lausum leigubílum vera að fjölga sem keyrðu fram hjá, við færðum okkur og mættum tveimur, en nú var allt í einu ekki stoppað fyrir farþegum úti á götu.

Við röltum aftur í leigubílaröðina í Aðalstræti og eftir einn og hálfan tíma fengum við bíl.

Daginn eftir heyrðum við það hefði verið gert ráð fyrir leigubílaröðum á öðrum stöðum, sem hefði nú verið vel þegið að fá að vita þegar vinkona okkar náði sambandi.

Það hjálpar ekki að svokallað ‘app’ hjá einni stöðinni er nánast fullkomlega gagnslaust.

Ég heyrði talsmann leigubílstjóra í viðtali á einhverri útvarpsstöðinni fyrir nokkrum vikum, hann viðurkenndi að ástandið væri ekki nógu gott, fann tillögum um úrbætur allt til foráttu en það var ekki nokkur leið að skilja hvað hann vildi að yrði gert í staðinn.

Ég veit að mörg þessara erlendu fyrirtækja hafa ekki gott orð á sér, en það ætti svo sem ekki að vera flókið að hafa skýrar reglur um réttindi og skyldur fyrirtækjanna sem tryggja rétt starfsmanna og farþega.

Vonandi ‘hysja’ núverandi aðilar upp um sig og koma þessu í lag. Nothæft ‘app’ þar sem hægt er að panta bíl, fá staðfestingu á pöntun, sjá hvar viðkomandi bíll er staddur með áætluðum komutíma, bílar í boði í takt við álag, leigubílaraðir skýrar [fyrir þá sem ekki vilja nota ‘app’] og bílstjórar sem fylgja röðinni. Og eitthvert gagn að upplýsingum þegar hringt er á stöð.

Vonandi bætir bráðnauðsynleg Borgarlína ástandið, en leigubílar þurfa væntanlega að vera valkostur áfram.

Lokað er á athugasemdir.