Posts Tagged ‘trúarsöfnuðir’

Fréttirnar á morgnana

Posted: janúar 8, 2026 in Samfélag
Efnisorð:, ,

Af gömlum vana byrja ég flesta morgna á að kíkja á fréttir.. og skal játa að ég er alltaf jafn undrandi á að ekki sé búið að skjót’ann. Eða hann hafi amk. hrokkið upp af af sjálfsdáðum.

Ekki misskilja. Alls ekki misskilja. Ég er alls ekki, engan veginn og aldrei að vonast eftir þessu.

Fyrir það fyrsta þá finnst mér ekki til fyrirmyndar að óska einhverjum dauðdaga, jafnvel verstu illmenni mannkynssögunnar eiga fjölskyldu og sumar hverjir jafnvel einhverja eiga vini.. Og ekki mæli ég ofbeldi bót í pólitískum tilgangi, það er sjaldnast rétta leiðin.

En aðallega þá finnst mér skipta verulegu máli að hann og hans hyski fái makleg málagjöld og dúsi sem lengst á bak við lás og slá. Þjóðir læra mest af því að taka á svona illþýði og úrhrökum sem tuddast til valda af festu og með lögum þar sem virkt og sanngjarnt réttarkerfi klárar málin.

Og svo óttast ég verulega að ef hann endar sem “fórnarlamb” þá verði allt eins líklegt að eftir tvö þúsund ár eða svo verði öflugur trúarsöfnuður, klofinn í mörg hundruð deildir, jafnvel ríkisrekinn sem tilbiðji þetta viðundur. Það er jú nægilega stór hópur sem trúir öllu í blindni sem frá honum kemur og afneitar allri gagnrýni, öllum óþægilegum staðreyndum og sér ekki í gegnum einföldustu og augljósustu lygar. Táknið yrði væntanlega riffill eða hríðskotabyssa.. nú eða derhúfa.