Eins sorglegt og tilgangslaust morðið vestanhafs var þá er eiginlega enn sorglegra að sjá aumkunarverða tilburði til réttlætingar í kjölfarið.
Allt er tínt til að ata fórnarlambið auri, líkast til er megnið af því hreinn uppspuni, amk. eru engar tilvísanir í gögn, eingöngu fullyrðingar út og suður.
Það er verið að tína til atriði sem morðinginn hefði aldrei getað vitað og breyta því engu um sekt hans.
Og auðvitað – þó svo að eitthvað af þessu væri rétt þá réttlætir það aldrei, aldrei morð, hvað þá að halda áfram að skjóta, að ég tali nú ekki um að neita fórnarlambinu um læknisaðstoð.
Það er sorglegt að fylgjast með.
Þetta nær jafnvel hingað – ég get ekki mögulega skilið hvað veldur því að íslenskir stuðningsmenn dæmds glæpamanns, nauðgara og líklega barnaníðings í annarri heimsálfu – sem þykist vilja gera það ríki máttugra en það var – eru að missa sig í að drulla yfir fórnarlamb morðs?
Vill þetta lið fá svona umhverfi hér heima? Fólk myrt af handahófi og morðið réttlætt vegna þess að stuðningsmennirnar halda með “sínu liði” hvað sem á gengur. Jafnvel þó liðið sé í annarri heimsálfu og hafi sem aðal markmið að auka mátt síns ríkis á kostnað annarra, þar með talið okkar.