Nú er ég ekki mikið fyrir samsæriskenningar, tek þeim yfirleitt með nokkuð miklum fyrirvara og er gjarnan leiðinlegi gaurinn sem vill staðfestar upplýsingar, staðreyndir og gef ekki mikið fyrir ábúðarfulla þuli að röfla samhengislaust með dramatískri tónlist og myndskreytingum á JútJúb, hvað þá grautarlegar samfélagsmiðla færslur.
En svo eru vangaveltur um að pakkið sem situr að völdum í appelsínu gula húsinu vestanhafs hafi fórnað einum af sínum til að fá tylliástæðu til að ráðast gegn pólitískum andstæðingum með ofbeldi og mannréttindabrotum.
Nú gildir sama um þessar kenningar og aðrar, ég þarf miklu meira af staðfestum upplýsingum áður en ég geri ráð fyrir að þetta sé rétt.
En ef ég ætti að raða samsæriskenningum síðustu áratuga eftir “líklegheitum” þá færi þessi nú ofarlega, jafnvel efst, á listann.
Það hefur auðvitað sýnt sig margsinnis að þetta lið er hamslaust í valdagræðgi og ófyrirleitið þegar kemur að meðulum til að ná markmiðum sínum.
Þau hafa áður ítrekað leitað í smiðju þeirra sem kveiktu í síðustu heimsstyrjöldum og alveg eins líklegt að fleiri fyrirmyndir séu sóttar þangað.
Jafnvel þegar staðfest er að gerandinn er “einn af þeim” heldur stefnan ótrauð áfram við að ráðast gegn mannréttindum, lífi og limum pólitískra andstæðinga.
Auðvitað má setja spurningu við hvers vegna þau véluðu ekki einn úr röðum andstæðinga sinna til að taka að sér verkið.
Svarið er samt kannski augljóst
- það er mun auðveldara að finna “gikkglaðan” einstakling í umhverfi harðlínumanna hægra megin
- það má líka vera að þetta sé enn eitt dæmið um getuleysi og vanhæfni
- en líklegasta skýringin er að þeim sé einfaldlega skítsama, enda margsinnis komist upp með að ljúga hvaða þvælu sem er – stuðningsmennirnir kokgleypa hvaða dómsdagsrugl og rökleysu sem er án þess að hugsa hálfa hugsun.