Sarpur fyrir október, 2023

Nei, ekki spurning um að þora

Posted: október 29, 2023 in Umræða
Efnisorð:

Ég sé að ansi margir eru að dreifa einhverjum samanburði á fólki sem hefur það ekki nægilega gott hér á landi og krefjast þess að hugsað sé um “Íslendinga” áður en við sinnum hælisleitendum.

Það eru samt nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.. mig grunar að einhverjir dreifi þessu án þess að hugsa alveg til enda.

Kannski fyrsta hugsun er – ef ég lendi einhvern tímann í þeim aðstæðum að geta ekki búið hér og þarf að sækjast eftir hæli annars staðar, þá vona ég svona sannarlega að þetta verði ekki ráðandi viðhorf sem mæti mér.

En það er líka fínt að hafa í huga að við eigum nóg að peningum til að sinna hælisleitendum OG standa okkur í velferðarmálum.. ef ekki, þá eru hæg heimatökin að sækja meira og/eða lækka önnur og ónauðsynleg útgjöld.

Auðvitað má finna dæmi þar sem einstaklingar lenda á milli liða í kerfinu og fá ekki þá aðstoð sem þarf. Við erum að gera vel, við getum gert betur – en stuðningur við hælisleitendur er ekki það sem hindrar. Eða dettur einhverjum í hug að þetta hafi verið í fullkomnu lagi áður en hælisleitendum fjölgaði?

Það skiptir auðvitað miklu í þessu samhengi að hælisleitendur er sjaldnast “byrði”, flestir eru fljótt farnir að skila sínu til samfélagsins.. og hvort sem er þá er kostnaðurinn varla mælanlegur. Og svo má hafa í huga að tæknilega kemur þetta úr sitt hvorum vasanum, ríkissjóður annars vegar og sveitarfélög hins vegar sinna þessum málum (jú, í samstarfi, en aðallega).