Þrot á þolinmæði gagnvart afneiturum loftslagsbreytinga

Posted: júlí 24, 2023 in Umræða

Hitabylgjan sem gengur yfir stóran hluta heimsins með tilheyrandi hrikalegum frávikum á veðri er heldur betur að takmarka þolinmæði mína gagnvart „loftslagsbreytinga-afneiturum“. Hversu æpandi augljósir þurfa hlutir að verða til að hægt sé að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér?

Fólk sem telur stutt kuldakast á einum stað jarðar endanlega afsönnun loftslagsbreytinga en finnst lítið mark takandi á hverju langtíma hitametinu á fætur öðru um allan heim – er auðvitað ekki viðræðuhæft [að því gleymdu að stöku kuldakast styður nú niðurstöður um loftslagsbreytingar ef eitthvað er] og ekki hjálpar yfirlætið sem fylgir þegar viðkomandi telja sig stunda gagnrýna hugsun – og birtir svo máli sínu til stuðnings ljósmynd sem það veit ekkert hvar er tekin, tilvísun í „vísindafólk“ sem það nennir ekki að athuga hvort sé til eða hafi yfirleitt einhverja þekkingu á málinu og toppar auðvitað með JútJúb broti með yfirgengilegum „effektum“ en engu innihaldi.

Ég einfaldlega nenni ekki að hlusta á þetta rugl lengur, það er ekki verið að leita að upplýsingum eða reyna að komast að því hvað sé rétt og hvað standist skoðun. Þetta virðist einhvers konar „keppni“ þar sem það eina sem skiptir máli er að hafi „sigur“ fyrir sinn málstað – allt er leyfilegt og skítt með hvað er rétt og hvað er rangt.

Þannig að ég ætla að taka til á samfélagsmiðlum (neyðist til að gera nokkrar undanþágur) – þetta er ekki í lagi og ég nenni þessu sem sagt ekki lengur.

Lokað er á athugasemdir.