Við vorum nokkrir á leiðinni til útlanda og vorum að klára að panta flug.
Einn í hópnum var ekki sannfærður um öryggið í fluginu. Hann hafði fundið JútJúb skot þar sem maður kynnti sig sem flugmann sagði stórhættulegt að ferðast með hefðbundnum flugfélögum. Hann gaf þá ástæðu að það væri repjuolía í stað bensíns í öllum flugvélum. JútJúb skotið endað svo á því að einhverjir sem virtust vera lögreglumenn réðust inn til hans og handtóku… þessi innrás og handtaka leit nú út fyrir að vera sviðsett, en ekki kannski hægt að fullyrða.
Við örstutta athugun kom í ljós að það var nú ekki beinlínis fótur fyrir fullyrðingum um repjuolíu. Þá strax kom í ljós viðkomandi var hreint ekki með flugmannspróf og jafnvel ekki hægt að staðfesta að hann væri yfirleitt til.
Sá sem hafði kynnt þetta til sögunnar taldi innrás lögreglu endanlega og óyggjandi sönnun þess að maðurinn hefði rétt fyrir sér. Hann gerði ekkert með augljósar sannanir um að kenningin um repjuolíuna gæti ekki staðist. Hann vísaði í greinar og tíst sem áttu að staðfesta tilvist mannsins… þær „upplýsingar“ voru einfaldlega einhverjir að vísa í hver í annan og í JútJúb skeiðið.
Þegar hann var beðinn um einhverja staðfestingu þá brást hann illa við og taldi það hlutverk okkar hinn að afsanna að maðurinn væri til.
Þá var dælt á okkur alls kyns undarlegum fullyrðingum um ofbeldi sem maðurinn átti að hafa orðið fyrir, aftur til sönnunar þess að hann hefði nú rétt fyrir sér. Við bentum á að þessar fullyrðingar stæðust nú ekki einfalda skoðun og væru í hrikalegu innbyrðis ósamræmi. Þá voru þessar sömu fullyrðingar augljóslega komnar frá CIA. Við nenntum ekki að spyrja hvers vegna CIA væri að standa á bak við þetta, eða réttara sagt, við höfðum ekki geð í okkur til að heyra svarið.
Í öllu falli við fórum út, komum heim heilu og höldnu. Hann sat eftir heima.