Rökleysu farganið vegna umskurðar

Posted: mars 3, 2018 in Umræða
Efnisorð:

Það er nánast galið að fylgjast með umræðunni vegna frumvarps um að banna umskurð barna. Út af fyrir sig mætti mögulega hugsa betur og kannski er þetta einfaldlega þegar bannað. En það mætti halda að það væri keppikefli þeirra sem mótmæla frumvarpinu að „dekka“ alla rökleysubókina.

Nokkrar greinar hafa birst í Fréttablaðinu nýlega.

Skoðum aðeins „rökin“.

„Ég hef aldrei hitt mann“ notar einn sem tölfræðilegar upplýsingar.

Allir skauta yfir tölur um fjölda barna sem hafa dáið í kjölfar aðgerðarinnar. Einn kallar það agnarlitla áhættu – kannski tölfræðilega lágt hlutfall, en ekki svo „agnarlítil“ áhætta að deyja.

Þau „rök“ heyrast kannski oftast að þar sem þetta sé trúarlegur siður þá sé það skerðing á trúfrelsi að banna þetta. Fyrir utan þá einföldu staðreynd að ekki er verið að skerða trúfrelsi nokkurs manns, aðeins að takmarka trúfrelsi einstaklingsins við hann sjálfan og setja skorður við að skaða aðra. Og enginn virðist þekkja bönn við margs kyns trúarathöfnum eða siðum í forneskjulegum samfélögum, bönn sem er sett vegna þess að viðkomandi athafnir stríða gegn almennum hegningarlögum, mannréttindum og/eða almennri skynsemi. Eða kannski kjósa þeir einfaldlega að hunsa óþægilegar staðreyndir – þarf ég nokkuð að nefna mannfórnir, dauðarefsingsar fyrir litlar sakir, þrælasölu, umskurð kvenna?

„Flestir“ þolenda virðast sáttir er ein fullyrðing, ekki veit ég hvaðan sú tölfræði er komin, eflaust eru ekki margir að tjá sig, en ef einhver þarf persónulega nálgun, þá má benda á lýsingu Hrafns Gunnlaugssonar.

Þá er því haldið fram að þessi aðgerð sé órjúfanlega hluti af trúnni. Samt er fjöldi fólks sem tilheyrir þessum trúarbrögðum án þess að fylgja þessari hefði, kannski ekki stór, en einn er nóg til að þetta geti aldrei talist „órjúfanlegur hluti“.

Þá eru auðvitað hefðbundnar rökleysur settar fram, athöfninni er líkt við að gefa fermingarbörnum messuvín, að foreldrar megi reykja ofan í börn og borið saman við afstöðu Votta Jehóva til blóðgjafa. Fyrir það fyrsta, eitt mannréttindabrot réttlætir ekki annað, þetta er fráleit rökleysa. Hitt er að sopi af messuvíni telur varla meira en sopi af malti, enginn dauðsföll eru þekkt af völdum messuvíns (nei, ekki heldur alkóhólismi) og þeir sem messuvínið þiggja eru eldri en vikugamlir, nánast fullorðnir, enda „fullorðinsvígsla“. Svo langt sem ég veit þá mega foreldrar ekki reykja ofan í börn og ef svo er, þá er um að gera að banna þeim það. Svo eru Vottar Jehóva nefndir til sögunnar og sá ósiður þeirra að neita blóðgjöf til að bjarga lífi. Ég þekki ekki lagaumhverfið nægilega vel hér, en ég veit að í Bretlandi geta læknar (eðlilega) tekið fram fyrir hendurnar á foreldrum sem vilja ekki bjarga lífi barna sinna með blóðgjöf… ef það er ekki svo hér, þá er það eitthvað sem þarf að laga. Þá má hafa í huga að það er talsverður munur á tilgangslausi inngripi annars vegar og því að neita aðstoð hins vegar. Og, hvort sem er, eins og ég segi, ein vitleysan réttlætir ekki aðra.

Einhver nefnir AIDS til sögunnar án þess að geta hvert samhengið er, vísað í skýrslur heilbrigðisstarfsfólks, án þess að geta heimilda og án þess að geta hver rök þessa heilbrigðisstarfsfólks séu – hvað þá að nefna annað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur aðrar skoðanir. Og auðvitað er WHO nefnd til sögunnar í framhjáhlaupi til að reyna að tengja stofnunina við stuðning við umskurð, auðvitað án nokkurra heimilda.

Til að bíta höfuðið af skömminni þá er svo verið að ýja að því að þeir sem taka málstað hvítvoðunga í þessu sjálfsagða mannréttindamáli, og gera það óháð trúarbrögðum, þjóðerni eða kynþætti séu að sýna kynþáttahatur, „rasisma“?

Að lokum er gjarnan talað um að þetta sé virðingarleysi við trúarhópa eins og gyðinga. Mér þykir eiginlega þvert á móti lítilsvirðing við gyðinga að gefa sér þeir taki ekki rökum, virði ekki mannréttindi og hangi sérstaklega á einu atriði þegar þeir hafa aflagt mörg einkenni trúarinnar. Gyðingar eru, eins og flestir trúar- lífsskoðunarhópar, langflestir skynsamir og ekki rétt að dæma heilan hóp út frá skoðunum örfárra talsmanna.

 

 

 

Lokað er á athugasemdir.