Ég heyrði biskup segja að það væri nú þegar aðskilnaður ríkis og kirkju. Já, á Íslandi. Nú ætla ég biskup ekki að fara vísvitandi með svona fleipur.
Það er deginum ljósara að
- stofnun sem er á fjárlögum
- starfsmenn stofnunar lúta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna
er ríkisstofnun… það þarf ekkert að ræða þetta frekar, allt annað er útúrsnúningur, misskilningur, blekkingarleikur eða þess vegna hrein og klár ósannindi.
Að ógleymdu smáatriðum sem samt skilgreina vel stöðu stofnunarinnar
- hún fær nefnilega að kaupa vín á sömu kjörum og sendiráð
- yfirmaður hennar ferðast á diplómatapassa
Nú ætla ég biskup sem sagt ekki að láta svona vitleysu frá sér fara vísvitandi. Kannski var biskup ný vöknuð af draumi (sem væntanlega hefur verið hálfgerð martröð fyrir hana).
En látum þá endilega þennan draum rætast.
Það er fullkomlega galið að í upplýstu samfélagi sé stórum fjárhæðum varið til stofnunar sem byggir á einhverju sem ekki nokkur maður hefur getað sýnt fram á að sé til – ekki hafa einu sinni verið færð rök fyrir að einhverjar (hverfandi) líkur séu á að þetta sé til.
Og rétt til að taka af allan vafa, og frábiðja mér útúrsnúninga… það er í góðu lagi mín vegna að fólk trúi hverju sem það vill, hafi sína siði og tilheyri þeim söfnuði sem það á samleið með. Auðvitað innan þeirra marka að viðkomandi starfsemi brjóti ekki réttindi annarra.
En þetta á ekkert erindi sem ríkisstofnun. Og það á ekki að auka fjárveitingar til svona stofnunar á sama tíma og blóðugur niðurskurður stendur yfir í heilbrigðiskerfinu sem sannnanlega virkar.