Skattalækkanir vegna sóknargjalda, framhald

Posted: janúar 25, 2021 in Umræða
Efnisorð:

Ég fékk svör frá fjármálaráðuneytinu við erindi mínu frá 11. janúar 2021, sbr. https://valgardur.blog/2021/01/11/skattalaekkun-vegna-greidslna-til-sokna/

Ég var hins vegar ekki alls kostar sáttur við svörin og sendi því annað bréf þar sem ég ítreka erindi mitt.

Takk fyrir skjót svör.

Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að ekki er ágreiningur um að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Darby skipti máli hér.

Fyrir utan að endurtaka efni erindis míns þá er nokkuð löng skýring á fyrirkomulagi sóknargjalda, ég hefði kannski átt að nefna að ég þekki þetta ágætlega og útskýringar því óþarfar.

Síðan kemur eitthvað óljóst „þá má segja..“ sem mér finnst vægast sagt undarlegt. Það hvað einhver telji að það að megi segja eitthvað er frekar vafasöm, ef ekki fráleit, forsenda fyrir brotum á mannréttindum.

Þá er nefnt til sögunnar að þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Aftur verður ekki séð að þetta komi málinu nokkuð við.

Bréfinu lýkur svo á því að segja að framangreindu virtu geti ráðuneytið ekki fallist á að koma til móts við erindi.

Ég get ekki séð nokkur rök í textanum sem vísað er til í „að framangreindu“ sem koma í veg fyrir að mál mitt sé afgreitt á viðunandi hátt. Ef hugsunin er sú að það sé ekki hægt að lækka tekjuskatta þeirra sem standa utan lífsskoðunarfélaga og greiða ekki tekjuskatt þá er auðvelt að finna lausn á því vandamáli og sjálfsagt að aðstoða við að leysa málið ef þetta er eina fyrirstaðan.

Það liggur fyrir að ríkissjóður greiðir lífsskoðunarfélögum eftir fjölda meðlima, það er klárt að ég er ekki meðlimur neins félags, ekki þarf að deila um að ég greiði skatta – bæði tekjuskatta og aðra – og ekki virðist ágreiningur um að þetta standist ekki skoðun hjá Mannréttindadómstólnum.

Þannig væri virkilega vel þegið ef hægt væri að klára þetta án frekari málalenginga.

Ekki viljum við að Íslenska ríkið fái enn einn dóminn á sig frá MDE?

Lokað er á athugasemdir.