„Gallinn við þessa kynslóð sem setti okkur á hausinn, ryksugaði fyrirtækin og fjármálakerfið og flutti peningana í einkareikninga á Tortóla er að þetta er kynslóðin sem var alin upp eftir að foreldrar hættu að rassskella börnin sín“ sagði vinkona mín á fjórða bjór um daginn.
Sennilega var þetta nú ekki meint bókstaflega og ekki ætla ég að fara að mæla með að foreldrar fari að beita börnin sín ofbeldi.
En ég fór að hugsa…
Kannski er eitthvað til í þessu, svona á einhverju sviði, því þetta er mögulega sú kynslóð sem er alin upp við að vera alltaf hrósað í hástert fyrir minnstu hreyfingu og aldrei mátti gera athugasemdir við eitt né neitt, hversu hálfvitalega sem þau höguðu sér.
Skýrustu dæmin, eða að minnsta kosti þau mest áberandi, eru kannski úr íslenskum stjórnmálum.
Það virðist æ algengara einstaklingar geti ekki unnið úr gagnrýni eða því að einhver sé þeim ósammála. Það er eins að heilinn ráði ekki við nýja upplifun á fullorðinssaldri. Eina mögulega skýringin sem þeim dettur í hug þegar einhver er þeim ósammála er að viðkomandi hljóti að vera að misskilja eða sé þátttakandi í herferð illa innrættra einstaklinga.
Ekki misskilja mig, ég er ekki að tala fyrir að foreldrar taki upp harkalegar refsingar. En kannski er mögulega, hugsanlega, ekki alveg fráleit hugmynd að þora að segja eitthvað við börnin þegar þau haga sér eins og hálfvitar!