Ég er aðeins að velta fyrir mér hvort ekki sé rétt að banna nokkrar starfsgreinar, til dæmis skúringar.
Sjálfum finnst mér þetta skelfilega leiðinlegt verk og get ekki ímyndað mér að nokkur velji sér þetta sem starf nema í algjörri neyð. Það að það sé eftirspurn eftir skúringum skiptir auðvitað engu. Og við skulum ekki láta okkur detta í hug að aðstoða fólk við að finna aðra valkosti.
Þá er þetta þreytandi starf, fer illa með úlnliði og olnboga þeirra sem starfa við þetta. Ég held að það sé fínasta hugmynd að banna skúringar.
Gleymum ekki að í mörgum tilfellum eru skúringar stundaðar af innfluttu vinnuafli sem býr við kröpp kjör og óprúttnir aðilar hagnast á aðstæðum þessa fólks.. fólk sem komið er til landsins allslaust, á ekki í önnur hús að venda og hefur ekki hugmynd um réttindi sín. Er ekki einfaldast að banna skúringar?
Svo er hugmynd að gera refsivert að kaupa skúringaþjónustu… Það myndi reyndar sennilega leiða til að skúringar yrðu að algerri neðanjarðarstarfsemi og endanlega vonlaust að tryggja þeim sem vilja starfa við skúringar réttindi. En okkur liði örugglega betur eftir að hafa sópað vandanum undir teppið.
Bönnum skúringar, fólk getur sópað upp eftir sig sjálft.