Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Lokað er á athugasemdir.