Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér en það hvarflar að mér að samtal á þessum nótum hafi átt sér stað fyrir nokkrum árum..
– Hvað getum við eiginlega gert í þessu? Krakkarnir eru hætt að koma í kirkju, glápa bara á sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, og ekki eru foreldrarnir að fara að mæta?
Úff, ég veit ekki, þetta er orðið rosalega erfitt. Getum við komist inn í barnatímana á sjónvarpsstöðvunum?
– Ég reyndi, en það vildi enginn hlusta á mig á dagskrárdeildinni, þeim fannst þetta ekki vera sitt hlutverk. Og héldu að áhorfið myndi minnka.
Já, hvar getum við eiginlega náð til barnanna?
– Hvað með skólana?
Ja, mér hafði nú dottið það í hug, en er það ekki full gróft?
– Getum við ekki kallað þetta starfskynningu? Eða, enn betra, vettvangsferð?
Jú, en við græðum nú lítið á því, við komum engum boðskap að þannig.
– Nei, nei, við byrjum bara þar. Svo bjóðum við hugvekju frá prestinum. Svo getum við bætt bænum við.
Já! Auðvitað. En verður fólk ekki órólegt? Nú eru börn í skólunum sem koma frá fjölskyldum sem eru trúlaus eða annarrar trúar.
– Við segjum bara að við séum að kynna þeim íslenska menningu.
Jú, það myndi ganga ef við erum bara að sýna þeim kirkjuna, en það gæti orðið erfitt þegar bænir og hugvekjur eru þáttur í þessu.
– Við byrjum auðvitað bara á heimsóknum. Þá segir enginn neitt. Svo þegar við bætum hugvekjunni og bænunum þá verður þetta orðin hefð.
En getum við beðið svo lengi?
– Hver er að tala um að bíða? Við gerum þetta í nokkur ár, svo köllum við þetta gamla og góða hefð, sem ekki má leggjast af.
Já, en það er nú ekki erfitt fyrir fólk að komast að því að þetta er nýbyrjað.
– Hver hefur áhuga á staðreyndum? Við þyrlum bara upp nógu miklu ryki, stöglumst á að þetta sé gömul hefð,
hvað heldurðu að margir nenni að tékka á þessu? Og ef einhver fer að amast við þessu þá skömmum við þá fyrir að vilja banna fólki að halda jólin, segjum að þeir vilji ekki að börnin fái fræðslu, að það megi ekki nefna Jesú á nafn lengur. Við höfum nógu marga fjölmiðla og stjórnmálamenn á okkar bandi.Köllum þá sem gera athugasemdir bara fýlupúka sem ekki vilji halda jól!
Það er nú reyndar ekki satt, flestir halda jú jól.
Hvað kemur það málinu við? Og… segjum lika að það sé bara hávær minnihluti sem vill kúga okkur í meirihlutanum.
Er það ekki varasamt? Það styttist jú í að við verðum í minnihluta.
Já, ef við gerum ekkert í málinu. Hömrum líka á að við séum kristin þjóð.
Við erum nú ekkert sérstaklega kristin.
Jú, ef við höldum áfram að segja fólki að við séum kristin þjóð, þá verðum við það á endanum.
Æi, er þetta nú heiðarlegt??
– Bíddu, ætlar þú að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan börnin alast upp í sinnuleysi gagnvart trúnni?
En hafa foreldrarnir nokkurn áhuga á þessu? Það er ekki eins og þeir séu að mæta í kirkju?
– Þetta er bara börnunum fyrir bestu. Og okkur.
Já, ætli það ekki…
Kannski er þetta tóm ímyndun í mér, en er von að manni detti þetta í hug?
Nú horfa þau ekki einu sinni á sjónvarp lengur, hvað þá hlusta á útvarp. Þetta eru sannkölluð vandræðabörn.